Þeir sáu að sér

Olíufélögin sem skelltu í fyrradag á eldsneytishækkunum sem voru, eins og FÍB benti á í frétt hér á fréttavef félagsins, algerlega úr takti við þróun heimsmarkaðsverðs á eldsneyti og gengi dollars gagnvart krónu, hafa nú flest dregið hækkanirnar til baka.

Sú gagnrýni sem félögin með réttu fengu á sig fyrir þessar tilefnislausu hækkanir hefur greinilega náð eyrum ráðamanna félaganna því þau hófu eitt af öðru að draga hækkanirnar til baka upp úr kl 15.00 í dag.

Það var Orkan sem reið á vaðið um þrjúleytið og lækkaði verðið hjá sér og kostar nú lítrinn af bæði bensíni og dísilolíu þar nú yfirleitt kr. 198,30. Hjá Atlantsolíu og ÓB kostar lítrinn nú kr. 198,40 og hjá Olís er verðið orðið kr. 198,60.