Þétt umferð, lokanir og tafir á hraðbrautum Evrópu um komandi helgi

Sumarumferðin á hraðbrautum Þýskalands, Frakklands og annarra ríkja á meginlandi Evrópu er nú að nálgast það sem hún verður mest. Skólum var lokað um síðustu helgi vegna sumarleyfa, milljónir fólks eru á faraldsfæti og umferðin á vegunum mikil og er búist við að hún verði gríðarleg um helgina sem framundan er. Þessu til viðbótar er mjög mikil umferð á vegum í Frakklandi og grannlöndunum vegna Evrópumótsins í knattspyrnu, eins og fjölmargir íslenskir ferðalangar hafa kynnst undanfarnar vikur.

Þeir sem verða á ferðinni á bíl í Evrópu næstu dagana, sérstaklega á suðurleið frá t.d. Jótlandi, Sjálandi (Kaupmannahöfn) og frá Noregi og Svíþjóð geta búist við verulegum umferðartöfum á hraðbrautunum. Rétt er að fylgjast vel með umferðartilkynningum í útvarpi og í GPS-tækinu til að geta valið leiðir framhjá verstu „stíflusvæðunum“ ekki síst í grennd við stórar borgir eins og Hamborg, Lubeck, Hannover og Ruhr-svæðið. Ef halda skal. til S. Frakklands eða Ítalíu gæti verið skynsamlegt að aka fyrst til austurs í átt að Berlín og síðan um nýju hraðbrautirnar suður eftir gamla Austur-Þýskalandi þar sem umferðin er oft léttari. Það bætir talsvert úr skák að vegna hinnar miklu sumarleyfistengdu umferðar hefur akstur vöruflutningabíla yfir 7,5 tonnum verið bannaður á laugardögum og sunnudögum á þýsku hraðbrautunum í júlí og ágúst.

Á sunnudaginn kemur, þann 3. júlí má búast við miklu öngþveiti við landamæri Ítalíu og Austurríkis. Það er vegna þess að þá verður hraðbrautinni A22 um Brennerskarð milli ítölsku bæjanna Bressanone og Vipiteno og um jarðgöngin lokað. Aðliggjandi vegum og járnbrautum við Wipptal Austurríkismegin verður sömuleiðis lokað. Ástæða þessarar lokun er sú að gera á óvirkar tvær sprengjur frá því í síðari heimsstyrjöldinni sem nýlega fundust nærri bænum Freienfeld í Austurríki. Reikna má með því að sú aðgerð standi meira og minna allan sunnudaginn. ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi, ráðleggur því vegfarendum á þessari leið að halda kyrru fyrir eða velja aðrar leiðir undir/yfir Alpana. Þær gætu t.d. verið um  Reschenpas, Jaufenpas eða um Puster-dalinn.