,,Þetta sýnir fyrst og fremst fákeppnina á markaðnum“

Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu hefur lækkað um rúmlega 20% frá því í byrjun júní. Á sama tíma hefur bensínverð hér innanlands lækkað lítið. Í umfjöllun í Viðskiptablaðinu segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að fylgni bensínsverðs við heimsmarkaðsverð ekki í samræmi við það sem sést í nágrannalöndunum. Bensínítrinn fór hæst upp í 350 krónur í júní og hefur nú lækkað niður í kringum 336 krónur á lítrann.

Runólfur segir að í  nágrannalöndunum var nánast línuleg þróun á bensínverði og heimsmarkaðsverði á olíu. Við sjáum að íslensku olíufélögin fóru ekki eins bratt til að byrja með í byrjun vors, en þegar bensínverðið var komið í hæstu hæðir hélst verðið hátt lengi og er enn mjög hátt. Þróunin í nágrannalöndunum var þannig að bensínverðið fór mjög hratt upp en líka hratt niður, í takt við heimsmarkaðsverðið.

Álagningin er sú mesta sem við höfum séð núna í júlí

,,Olíufélögin hafi greinilega verið með mjög háa álagningu á bensín og dísel yfir sumarmánuðina. Fákeppni á markaði leiði til þess að ekkert olíufélag sjái sér fært að lokka til sín viðskipti með því að lækka bensínverð. Við höfum gagnrýnt það að það virðist vera ákveðin viðleitni að halda álagningunni áfram hárri núna þegar stærstu viðskiptamánuðirnir eru í gangi. Álagningin er sú mesta sem við höfum séð núna í júlí og hún hefur haldið áfram að vera mjög há í ágúst. Þetta sýnir fyrst og fremst fákeppnina á markaðnum, það sér ekkert fyrirtæki tækifæri í því að lokka til sín viðskipti af því að þau vita að markaðurinn hegðar sér allur eins,“ segir Runólfur Ólafsson í samtali við Viðskiptablaðið.

 Lækkunin á heimsmarkaðsverði á olíu ætti að óbreyttu að vera meira komin fram

 Runólfur velti því fyrir sér  hvort félögum á markaði sé treystandi til að bjóða neytendum upp á eldsneytisverð í samræmi við heimsmarkaðsverð og bendir á að bensínverð er stór liður í vísitölu neysluverðs. Lækkunin á heimsmarkaðsverði á olíu ætti að óbreyttu að vera meira komin fram. Bensínverð er það stór þáttur í neyslu, ekki bara heimila heldur fyrirtækja og allra í landinu. Þetta er jafnframt stór liður í vísitölu neysluverðs og hefur þar af leiðandi áhrif á verðbólguna.“

„Það er slæmt ef að íslensk fyrirtæki á eldsneytismarkaði sjá sér hag í því að nýta sér stríð í Úkraínu til að fá inn auka krónur,“ segir Runólfur Ólafsson.