Þingmannsýkjur

FÍB hefur gagnrýnt forsendur og og útreikninga Vaðlaheiðargangamanna og varð fyrst til að sýna fram á það að hvorugt stæðist og hið sama gerði nokkru síðar Pálmi Kristinsson verkfræðingur en hæfi hans til slíkra útreikninga er hafið yfir allan vafa. Gagnrýni FÍB og annarra sem séð hafa í gegn um excel-skrautsýningar reiknimeistara Vaðlaheiðarganga er alls ótengd einhverskonar meintri andúð á landsbyggðinni og Akureyringum eins og  ýmsir hafa fullyrt. Hún snýst um það eitt að gefnar forsendur og útreikningar á hagkvæmni standast ekki. Framkvæmdina á að taka út fyrir sviga vegaáætlunar og fram fyrir aðrar sannanlega nauðsynlegri og arðbærari framkvæmdir í vegakerfinu og ríkið á að greiða það og ábyrgjast að öllu leyti, en fá vægt sagt afar óvissar veggjaldatekjur á móti.

Þetta athæfi mun óhjákvæmilega seinka öðrum framkvæmdum sem framar eru í forgangsröð vegaáætlunar. FÍB gerir sér fulla grein fyrir því að Vaðlaheiðargöng eru samgöngubót og framfaramál í sjálfu sér en þau eru ekki fremst í forgangsröðinni og það er ekki ásættanlegt að velta þeim á herðar fjárvana ríkissjóðs á erfiðum tímum.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður norðurkjördæmis eystra var í viðtali í þættinum Í bítið á Bylgjunni sl. miðvikudagsmorgun, greinilega til þess að freista þess að mótmæla ýmsum staðreyndum um þessa fyrirhuguðu framkvæmd sem fram höfðu komið í máli Ólafs Kr. Guðmundssonar  tæknistjóra EuroRAP á Íslandi á sama vettvangi tveimur dögum fyrr. Það varð fljótt ljóst í byrjun viðtalsins við þingmanninn að hann lætur ekki staðreyndir og sannleika vefjast fyrir sér. Hann sagði m.a. án þess að hika, að Víkurskarð væri einn illvígasti fjallvegur landsins, hann lokaðist oft og lengi að vetrarlagi vegna ófærðar og slys væru tíð, ekki síst hálkuslys. Allt er þetta rangt hjá þingmanninum.

Það versta var þó að þingmaðurinn virtist treysta á lélegt langtímaminni hlustenda þegar hann nefndi dæmi um það hversu hættulegur vegurinn um Víkurskarð væri. Orðrétt sagði hann: „Það varð hræðilegt slys í Víkurskarði fyrir nokkrum árum síðan. Það var vöruflutningabíll þar sem feðgar létust, ekki vegna þess að þeir fóru niður brekkuna heldur vegna þess að það er svo mikil hálka og skriðþunginn er svo mikill þarna niður að hann þurfti að beygja upp í fjallið og þeir létust báðir.“

Þetta slys sem Höskuldur var svo smekklegur að lýsa svona er eina dauðaslysið sem við vitum til að orðið hafi á veginum um Víkurskarð. Það varð ekki í skarðinu sjálfu heldur neðan við það vestanvert um 190 metra frá Grenivíkurvegamótunum. Engin hálka var á veginum enda gerðist þessi atburður þann 29. júní 1995. Samkvæmt skýrslum um slysið gerðist það þannig að hemlar bílsins biluðu og hann fór útaf á tiltölulega slétta grund en lenti í ræsi eða barði. Farmurinn losnaði og kastaðist á stýrishúsið með þessum hörmulegu afleiðingum.

Í Bítið - Ólafur Guðmundsson rífur í sig Vaðlaheiðargöng: "Kjördæmapot"

Í Bítið - Höskuldur Þórhallsson þingmaður ræddi Vaðlaheiðagöngin