Þjófnaðarfaraldur á bílnúmeraplötum

Þjófnaður á númeraplötum bíla er orðinn að verulegum vanda á meginlandi Evrópu. Þar er númeraplötum stolið til að fela slóðir manna sem stunda viðskipti með stolna bíla, ýmsan varning og jafnvel mansal milli ríkja. Hér á landi er vandamálið nokkurt, en þar sem Ísland er eyja, felst vandinn einna mest í því að auðnuleysingjar stela númeraplötum af bílum til að skrúfa á aðra bíla í því skyni að dylja slóð sína við smærri lögbrot eins og bíla- og bensínþjófnað, innbrot og slíkt.

Stolnar númeraplötur geta bakað eigendunum margvíslegan vanda eins og þann að allt í einu getur fólk þurft að fara að verjast kröfum um sektargreiðslur fyrir að það vanti númersplötu á bílinn eða þá kröfum vegna umferðar- og stöðubrota eða fyrir eldsneytisþjófnaði sem einhverjir allt aðrir hafa framið. Þá tekur það bæði tíma og kostar fyrirhöfn að fá nýjar númeraplötur og í mörgum ríkjum má alls ekki hreyfa bílinn meðan hann er númerslaus og bráðabirgðanúmer liggja hreint ekki á lausu hjá yfirvöldum.

Sænskt upplýsingafyrirtæki, autobutler.se, sem sérhæft er í upplýsingum um bílaverkstæði og bílaviðgerðir segir lausn vandans ósköp einfaldlega felast í því að setja ný lög sem gera það skylt að festa númeraplöturnar tryggilega við bílinn þannig að meira þurfi til að taka þær af bílum en bara að opna litla smellu og taka plöturnar síðan úr plastramma. Þjófnaður á plötum verði mun erfiðari. Ef númeraplötum hefur verið stolið af bíl er nauðsynlegt að tilkynna það strax. Við það verður staða eigandans gagnvart alls kyns kröfum og misskilningi allt önnur en ef hann lætur hjá líða að tilkynna stuldinn.

Í Svíþjóð einni var í febrúar sl. tilkynnt um þjófnað á númeraplötum af  32 480 bílum. Í ágúst 2013 var númerum af 17.553 bílum stolið. Það þýðir að þessir þjófnaðir hafa aukist um 54 prósent á einungis 18 mánuðum.  Hlutfallslega flestir þjófnaðirnir eiga sér stað í höfuðborginni Stokkhólmi eða 10. 090 í fyrra. Athygli vekur að eftir að sérstakur þrengslaskattur var lagður á umferð bíla í miðborgum Stokkhólms og Gautaborgar að viðlögðum sektum fyrir að hunsa skattinn, jukust númerastuldir  mjög, sérstaklega í Gautaborg.