Þjónusta Vegagerðarinnar um jól og áramót

Þjónusta Vegagerðarinnar um hátíðirnar verður með nokkuð hefðbundnu sniði. Nánari upplýsingar um vetrarþjónustu um jól og áramót má finna hér. Á aðfangadag og gamlársdag verður umferðarþjónustan í síma 1777 opin frá klukkan 6.30 til 22. Starfsmenn vaktstöðva verða hins vegar á vakt allan sólarhringinn.

Hlutverk vaktstöðva og þjónustustöðva Vegagerðarinnar er að tryggja að vegir haldist í því ástandi sem ætlast er til skv. snjómokstursreglum. Starfsmenn þjónustustöðva vinna til 14 á aðfangadag og gamlársdag nema ófærð verði mikil, þá er unnið lengur.

Ef veður er vont og færð breytileg er staðið að þjónustu af fullum þunga.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og víða bjartviðri, en stöku él með vesturströndinni. Frost 0 til 15 stig, kaldast í innsveitum norðaustantil.
Vaxandi sunnanátt í kvöld og nótt, víða 13-18 og rigning á morgun, en 18-23 m/s norðvestanlands síðdegis. Hægari vindur og þurrt á Austurlandi fram á kvöld. Hlýnandi, hiti 4 til 12 stig seinnipartinn.

Á föstudag (jóladagur):
Suðvestan 13-18 m/s og él. Rigning í fyrstu A-lands, en styttir upp þar með morgninum. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag (annar í jólum):
Fremur hæg norðlæg átt og víða dálítil él, en hvessir síðdegis og bætir í ofankomu NA-til. Frost 0 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á sunnudag:
Hvöss norðlæg átt og snjókoma eða él, en þurrt sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig, en frostlaust við S-ströndina.

Á mánudag:
Norðvestlæg átt og él, en þurrt að kalla S- og A-lands. Frost 0 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga breytilega átt með björtu og köldu veðri.