Þjónustubókin - rafræn lausn um þjónustusögu bíla

Þjónustubókin er ný rafræn lausn sem safnar viðgerðar- og þjónustuupplýsingum frá bílaumboðum og verkstæðum um bifreiðar, samhliða gögnum frá Samgöngustofu. Er það gert með umboði eigenda bifreiðanna til að útbúa samræmda skýrslu um sögu bifreiða.

Slíkar skýrslur auka ekki einungis traust neytenda og kaupenda bifreiða heldur mun það draga úr umsýslukostnaði eigenda og verkstæða við upplýsingöflun. Upplýsingar eru sóttar með formlegu umboði a grundvelli GDPR, undirritað með gildum rafrænum skilríkjum.

Til þess að gera lausn þessa sjálfvirka er Þjónustubókin að innleiða rafræn tengsl milli þeirra mismunandi kerfa sem eru í notkun hjá viðgerðar-og þjónustuaðilum á markaðnum. Þegar hefur verið lokið við innleiðingu á viðskiptakerfinu Stólpa sem mörg verkstæði nota. Samningur sem tekur mið af gagnafyrirkomulaginu er gerður við hvern og einn viðgerðar- og þjónustuaðila. Aðgangur eða gögn eru ekki tekin í notkun nema beiðni og umboð frá eiganda bifreiðar til að sækja gögnin liggi fyrir.

Kerfið sækir gögnin sjálfvirkt í kjölfar innleiðingar og ekki verður því um neinar tvískráningar að ræða. Hér er á ferðinni tæknilausn sem hefur ýmis jákvæð áhrif eins og aukið gagnsæi fyrir eigendur og kaupendur bifreiða og undirstrikar um leið mikilvægi faglegra þjónustuaðila og ábyrgðarþjónustu. Þá getur lausnin komið í veg fyrir svokallað kílómetrasvindl.

Bílgreinasambandið ásamt Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, og Tækniþróunarsjóði hefur verið starfsmönnum Þjónustubókarinnar innan handar við þróun lausnarinnar. Aðilar frá Þjónustubókinni munu hafa samband við verkstæði um allt land á næstunni og biðjum við félagsmenn Bílgreinasambandsins að taka vel á móti þeim.

Skoða vef Þjónustubókarinnar - thjonustubokin.is