Þotubíllinn Fiat Turbina 1954

Fiat hefur löngum verið meðal frægustu bílaframleiðenda fyrir hugmyndaauðgi og dirfsku bæði í tæknilegu en ekki síst hvað varðar hönnun og er viðburðurinn á akstursbrautinni á þaki Fiat bílaverksmiðjunnar í Torino þann 14. april 1954 til vitnis um það. 

    Þar byrjaði nefnilega reynsluekill Fiat sem hét Carlo Salamano að reynsluaka frumgerð nýs sportbíls með þotuhreyfli í stað venjulegrar bensínvélar. Fiat Turbina hét bíllinn og var hugarfóstur þáverandi tæknistjóra Fiat sem hét Dante Giacosa.

    Þegar þarna var komið sögu voru liðin níu ár frá heimsstyrjaldarlokum og bílaframleiðendur vildu nýta nýjustu tækniþekkingu úr fluginu ekki síst, í bílaframleiðslunni og sumir töldu að nýjustu túrbínuhreyflar gætu leyst stimpilmótorana af hólmi, enda bæði léttari og einfaldari. Hinn breski bílaframleiðandi Rover hafði reyndar reynt þetta strax árið 1950 og setti þotuhreyfil í bíl sem kallaðist Rover Jet 1. Löngu síðar prófaði Chrysler þotuhreyfla líka og byggði um 50 þotubíla og var þeim reynsluekið samtals yfir 1,8 milljón kílómetra.

    Fiat Turbina2Þotuhreyfillinn í Fíatinum var einungis 260 kíló að þyngd. Í honum voru þrjú brunahólf og tvöföld loftþjappa. Aflið var 300 hestöfl og snúningshraði aflúrtaks hreyfilsins var 22 þúsund snúningar á mín. Því þurfti niðurfærslugír áður en snúningsvægið fór út í drifhjól bílsins. Hámarkshraðinn var í kring um 250 km/klst.

    Sjálfur bíllinn var mjög straumlínulagaður og loftmótstöðustuðulinn því mjög lágur eða 0,14. Hann var tveggja manna og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd voru í mælaborðinu alls 12 mælar sem sýndu auk hraða bílsins m.a. snúningshraða túrbínunnar, olíuhita, hita í brunahólfunum og þrýstinginn í eldsneytisinnsprautunarkerfunnum sem eru tvö. Eldsneytið er steinolía (kerosen) og eru í bílnum tveir eldsneytisgeymar aftast til sinnar hvorrar handar.

    Umfangsmikill reynsluakstur leiddi í ljós að þotuhreyfill var ekki nothæfur til að knýja bíla í almennum akstri. Í fyrsta lagi var útblásturinn allt of mikill og allt of heitur. Þá var eldsneytiseyðslan allt of mikil og sömuleiðis hávaðinn.