Þráðlaus rafhleðsla rafbíla

Volvo hefur verið í samvinnu við ýmis tæknifyrirtæki að prófa sig áfram með þráðlausan rafhleðslubúnað fyrir rafbíla. Tilraunirnar, sem nú er lokið, hafa skilað mjög góðum árangri samkvæmt því sem segir í frétt frá Volvo. Niðurstöður eru þær að þráðlaus hleðslubúnaður eigi sér bjarta framtíð.

http://www.fib.is/myndir/Volvohledsla2.jpg

Lennart Stegland sem stjórnar rafmagnsbíladeild Volvo segir að þráðlausi hleðslubúnaðurinn sem nú hefur verið þrautprófaður hafi sýnt sig vera bæði þægilegur í notkun, mjög afkastamikill, hættulaus og eigi framtíðina fyrir sér. En þar sem enginn almennur staðall sé enn til um búnað af þessu tagi sé nauðsynlegt að menn komi sér saman um hann sem fyrst. Hjá Volvo verði tilraunum og prófunum haldið áfram í því skyni að gera þessa tækni sem hagkvæmasta og fýsilegasta fyrir raf- og tvíorkubíla.

 Þráðlaus hleðsla felst í stuttu máli í því að rafsegulsvið í kring um rafsegulspólu er nýtt til þess að flytja raforku úr einum stað í annan eða úr straumgjafa í rafgeyma. Tæknin er svosem ekki ný af nálinni en hún fyrirfinnst á mörgum heimilum til þess að hlaða upp smátæki eins og rafmagnstannbursta en er enn ekki aðgengileg almenningi til að hlaða upp rafbíla.

Hleðslan fer þannig fram að bíllinn er stöðvaður á sérstöku stæði þar sem hleðslubúnaði hefur verið komið fyrir undir yfirborðinu. Um leið og bíllinn stansar þar fer hleðslan sjálfkrafa í gang. Stegland segist viss um að þetta sé einn þeirra þátta sem mun að lokum sætta almenning að fullu við rafbíla.

Tilraunirnar fóru aðallega fram hjá þekkingarmiðstöð bílaiðnaðarins; Flanders´ Drive í Belgíu. Auk Volvo komu að þeim aðilar eins og Bombardier Transportation og rútubílasmiðjan Van Hool og belgíska ríkisstjórnin. Rafbílarnir sem Volvo lagði til tilraunanna var rafbíllinn Volvo C30 Electric en hann er með 12 ha. rafmótor. Tilraunirnar sýndu að hleðslutími bílsins með tóma rafgeyma getur farið niður í aðeins tvær og hálfa klukkustund.