Þrátt fyrir mikla lækkun telur FÍB eldsneytisverð 8 krónum of dýrt

Þessa dagana eru neytendur að sjá mestu lækkun olíu á heimsmarkaði í rúmlega fjögur ár. Aðal ástæða lækkunarinnar er útbreiðsla kórónaveirunnar, COVID 19, en vegna hennar hefur verð á olíu lækkað hratt á stuttum tíma.

Í umfjöllun um málið í Viðskipta Mogganum í dag segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigendal, FÍB, að þrátt fyrir lækkunina á heimsmarkaði sé verð á eldsneyti á Íslandi í dag um átta krónum of hátt.

,,Að vísu sé verðmyndun einkennileg á Íslandi þar sem verð á ,,Stór-Garðabæjarsvæðinu“, hjá bensínstöðvum í kringum Costco um 30 krónum lægra en annars staðar. Það er undirliggjandi meiri lækkun á eldsneytisverði en komið hefur fram hér,“ segir Runólfur Ólafsson í samtalinu við Viðskipta Moggann.

Fram kemur að verð á olíu hafi lengi verið í jafnvægi, og á því bili sem OPEC, samtök olíuríkja, stefna að, sem er í kringum 60-70 dollarar fatið. Verð á fatinu í dag er hins vegar í kringum 50 dalir.

Olíufélögin hér á landi hafa verið að lækka eldsneytisverð síðustu daga og segja að fylgst verði grannt með gangi mála.