Þriðjungi meira ekið í apríl á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum apríl mánuði reyndist nærri þriðjungi meiri en í sama mánuði fyrir ári. Aukningin skýrist af Covid-faraldrinum. Frá áramótum hefur umferðin aukist um ríflega tíu prósent miðað við árið 2020 en dregist saman um tæp fjögur prósent sé tekið mið af árinu 2019 að því fram kemur í tölum frá Vegagerðinni.


Umferðin yfir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu reyndist tæpum 32% meiri, í nýliðnum apríl, en í sama mánuði á síðasta ári. Helsta ástæða svo mikillar aukningar er auðvitað sú að á síðasta ári geisaði fyrsta bylgja Covid-faraldursins á þessum tíma.

Mest jókst umferðin um Hafnarfjarðarveg eða um rúmlega 41% en minnst um Vesturlandsveg eða um rúmlega 29%. Nú hefur umferðin aukist um 10,4% frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári. Ef hins vegar er miðað við árið 2019 þá er umferðin 2021 enn tæpum 4% undir því, sem hún var á þessum sama tíma árið 2019.

Umferð eftir vikudögum
Í síðasta mánuði jókst umferðin í öllum vikudögum, borið saman við sama mánuð á síðasta ári, mest jókst umferðin á sunnudögum eða um rúmlega 48% en minnst á fimmtudögum eða um rúmlega 24%. Mest var ekið á þriðjudögum en minnst á sunnudögum.