Þríeinn bíll ársins 2013 í Danmörku

Atkvæði þeirra bílablaðamanna sem velja bíl ársins í Danmörku skiptust óvenju jafnt milli þeirra fimm bíla sem í úrslit komust að þessu sinni. En sá bíll sem hreppti titilinn að þessu sinni er raunar undir þremur tegundar- og gerðarheitum en þó einn og sami bíllinn með smávægilegum útlitsmun. Bíll ársins í Danmörku 2013 er semsé VW Up, Skoda Citigo og Seat Mii. Einungis örfá stig skilja milli bílanna í þremur efstu sætunum.

Segja má að pyngja danskra bílakaupenda hafi þegar valið bíl ársins því að VW up! er mest seldi bíllinn í Danmörku á þessu ári og jafnframt er hann undir nafninu Skoda Citigo, jafnframt sá ódýrasti um þessar mundir.

Mjög mjótt var á munum þegar bílablaðamennirnir greiddu atkvæði um hver skyldi hreppa hnossið Bíll ársins í Danmörku 2013. Svo mjótt að greiða þurfti atkvæði nokkrum sinnum milli þeirra fjögurra efstu áður en úrslit fengust. Aldrei áður hefur verið svo mjótt á munum í lokaatkvæðagreiðslu um bíl ársins í Danmörku. 

Það er klúbbur danskra bílablaðamanna sem stendur að vali á bíl ársins þar í landi. 21 blaðamaður kom að valinu að þessu sinni, frá öllum fjölmiðlum í landinu sem fjalla reglulega um bíla, þar á meðal frá Motor, systurblaði FÍB blaðsins á Íslandi. Af þeim bílum sem komið hafa til Danmerkur á yfirstandandi ári og teljast nýir í veigamiklum atriðum eins og hönnun og tækni völdust fimm í lokaúrslit. Þessir fimm bílar voru síðan skoðaðir og metnir nánar á Jyllands Ringen sem er lokað aksturssvæði í eigu FDM, systurfélags FÍB. Lokavalið tók þrjá daga. Röð þessara fimm efstu var sem hér segir:

1.  Seat Mii/Skoda Citigo/VW Up 116 stig
2.  Volvo V40 111 stig

3.  Kia Ceed 109 stig

4.  BMW 3-lína 106 stig

5.  Renault Clio 83 stig