Þrif gatna hafin í borginni

Sópun á götum og stígum í Reykjavík hófst í síðustu viku um leið og veður leyfði og var það rúmri viku á undan áætlun. Þetta kemur fram á vefsíðu Reykjavíkurborgar. Fjölförnustu leiðirnar,  allar stofnbrautir og tengigötur, sem og helstu göngu- og hjólastígar eru hreinsaðar fyrst. Þessar meginleiðir liggja þvert um borgarlandið og njóta því forgangs. Í framhaldi verður farið skipulega um hverfin og húsagötur sópaðar og þvegnar.

Fram kemur að húsagötur verði sópaðar og þrifnar þegar lokið verði að þrífa fjölförnustu leiðirnar.Þegar farið verður í húsagötur verður það tilkynnt sérstaklega með dreifibréfi til íbúa og skilti sett í þær götur sem á að þrífa.

Þegar þar að kemur verða bíleigendur beðnir um að færa bíla sína úr stæðum við götuna. Það gildir þó ekki um stæði inn á lóðum því þrif þeirra er í höndum húseigenda.

Á vef Reykjavíkurborgar – reykjavik.is/hreinsun – má sjá verkáætlun vegna hreinsunar. Breytilegt er frá ári til árs í hvaða hverfi er farið fyrst.

Vert er að hafa í huga að fyrsta sópun í húsagötum er grófsópun. Það þurfi oft að taka mikið upp af götum og stígum, en það fari í síðari yfirferð eða þvotti. Verkið gangi einnig margfalt betur ef íbúar færi bíla sína frá þegar þrifið er.