Þrír slást um þrotabúið

Næstu daga eða jafnvel klukkustundirnar verður ljóst hver framtíð Saab verður. Kínverska fyrirtækið Youngman, sem hafði dregið sig út úr baráttunni um þrotabúið, hefur nú lagt inn nýtt tilboð sem sagt er vera lokatilboð.

Rafbílafyrirtækið NEVS reynir að prútta verðið niður að því er sænskir fjölmiðlar greina frá. Hins vegar telja þeir að hið indverska Mahindra sé líklegast til að hreppa hnossið. Mahindra hefur dálítið forskot á hina bjóðendurna því það hefur átt áður í talsvert náinni samvinnu við Saab, m.a. í rafbíltækni auk þess sem Mahindra er að eignast gömlu Saab flugvélaverksmiðjurnar (Svenska Aeroplan AB), en í þeim kaupum er þrotabú Saab nokkurskonar skiptimynt. Af hálfu bústjóra þrotabúsins er það ófrávíkjanlegt skilyrði til þess sem hnossið hreppir, að áfram verði starfsemi og framleiðsla í Trollhättan.