Þrjú kauptilboð í Opel

http://www.fib.is/myndir/Opel-insignia.jpg
Opel Insignia. Velheppnaður bíll sem selst vel.

Tilboðsfrestur í GM Europe, sem er Opel að stærstum hluta, rann út sl. miðvikudag kl. 16.00 að íslenskum tíma. Þrjú tilboð bárust; frá Fiat eins og vitað var, frá íhlutaframleiðandanum Magna og belgískum íhlutaframleiðanda og fjárfestingafélagi sem heitir RHJ International. Saab sem einnig er hluti af GM Europe fylgir greinilega ekki með í kaupunum og Fiat lýsti því yfir í gær skýrt og skorinort að fyrirtækið hefði ekki verið að bjóða í Saab. Íhlutaframleiðandinn Magna virðist á hinn bóginn hafa meiri áhuga á Saab en Fiat hefur. Bloomberg fréttaveitan greinir allavega frá því að svo sé.

Það kann að verða eitthvað snúið að selja GM Europe af þeirri einföldu ástæðu að móðurfyrirtækið GM er á barmi gjaldþrots. Staða þess er svo slæm að verði bandarísk stjórnvöld ekki komin með enn eina nýja, trúverðuga og haldbæra rekstraráætlun í hendur fyrir 1. júní nk. þá þykir útséð með það að dómstóll felli gjaldþrotsúrskurð samkvæmt  svonefndum Chapter 11 lögum. Í þeirri rekstraráætlun sem GM lagði fram síðast er gert ráð fyrir því að skuldir verði afskrifaðar og lánardrottnar eignist í staðinn hlutabréf í GM. Það þýðir að bæði ríkið og verkalýðsfélög starfsmanna myndu eignast stóran hlut í GM. Fari GM í dómsstólsstýrt gjaldþrot gætu þessi mál öll flækst talsvert og sala á GM Europe og Saab komist í uppnám og dregist á langinn.