Þróun bensínverðs 2022 – álagning Costco snarhækkaði á seinni árshelmingi

Útsöluverð á bensínlítra í upphafi árs var 270,90 krónur hjá N1 en 230,90 krónur hjá Costco. Verðmunurinn var 40 krónur á lítra. Á sama tíma var lítraverðið hjá Q8 í Danmörku, uppreiknað með gengi dönsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku, 255,80 krónur.  Á þessum tímapunkti var bensínlítrinn í Danmörku mitt á milli verðsins hjá N1 og Costco á Íslandi.

Núna um jólin kostar bensínlítrinn hjá N1 327,20 krónur, 294,70 hjá Costco og 276,30 hjá Q8 í Danmörku. Verðmunurinn á milli N1 þjónustustöðvar og Costco er 32,50 krónur en Q8 í Danmörku selur bensínið 18,40 krónum ódýrar en Costco í Urriðaholti.

Q8 rekur þjónustustöðvar víða um Danmörku. Fastir krónutöluskattar á hvern lítra af bensíni í Danmörku uppreiknað yfir í íslenskar krónur eru um 6,40 krónum hærri en á Íslandi. Virðisaukaskattur í Danmörku er 25% en 24% hér á landi. 

 

Á línuritinu sést að verðið í Danmörku hefur fylgt línulega þróun heimsmarkaðsverðs. Verðin hjá N1 og Costco fylgja heimsmarkaðnum alls ekki eins eftir en fylgjast innbyrðis að. Um tíma í maí og byrjun júní fór bensínlítrinn hjá Q8 í Danmörku uppfyrir verðin hjá N1 á Íslandi. Frá 3. til  6. júní var lítrinn hjá Q8 um 12 krónum dýrari en hjá N1 og tæplega 46 krónum dýrari en hjá Costco.

Dönsku verðin fylgdu skarpri hækkun á heimsmarkaði en lækkuðu um leið og markaðir fóru að ganga til baka. Verðþróunin á Íslandi var önnur. Um miðjan júlí var lítraverðið í Danmörku rúmlega 10 krónum ódýrara en hjá Costco og tæplega 43 krónum ódýrara en hjá N1. Frá þessum tímapunkti hefur bensínið hjá Q8 Danmörku verið undir verðinu hjá Costco og N1.

Samkvæmt útreikningum FÍB þá var álagningin hjá Costco af bensínlítranum mjög lítil fyrstu 6 mánuði ársins en að sama skapi mjög mikil seinni helming ársins. Hækkun álagningar hjá Costco er yfir 800% á milli árshelminga. Álagning Costco liðna 6 mánuði, uppreiknuð með vísitölu neysluverðs, er umtalsvert hærri en Costco hefur frá upphafi rekstrar hér á landi boðið meðlimum sínum uppá.

Álagningin í desember er sú hæsta sem sést hefur frá upphafi rekstrar Costco á Íslandi og þvert á álagningarstefnu Costco heildsölunnar á öðrum markaðssvæðum. Álagningin hjá N1 hefur vaxið mikið á milli árshelminga eða yfir 180%. Það er vissulega rétt að íslensku félögin voru hófsamari í álagningu á fyrri helmingi ársins en löngum áður en að sama skapi er álagningin liðið hálft ár hressilega yfir því sem eðlilegt getur talist. 

Þessi verðstefna á fákeppnismarkaði með eldsneyti á verðbólgutímum er blaut tuska framan í neytendur.