Þungaviktarmaður

Mikill þungaviktarmaður í evrópskum bílaiðnaði; Carl-Peter Forster hefur tekið sæti í stjórn Volvo. Carl-Peter Forster hefur verið forstjóri General Motors í Evrópu, stjórnarformaður Saab og nú síðast forstjóri Jaguar/Land Rover. Hjá Volvo vænta menn þess að með komu Forsters í stjórnina verði vörn snúið í sókn.

Carl-Peter Forster er 58 ára gamall, fæddur árið 1954 í London, sonur þýsks sendifulltrúa. Hann óx upp í London og í fleiri Evrópulöndum eftir því sem faðirinn var fluttur til innan v. þýsku utanríkisþjónustunnar. Hann talar ensku án hreims og sömuleiðis móðurmál sitt, þýsku. Ferill hans innan bílgeirans hófst hjá BMW árið 1986. Þar komst hann fljótt til metorða og varð snemma forstjóri BMW í S. Afríku og síðar framkvæmdastjóri þróunardeildar BMW. Árið 2001 réðist hann til Opel og varð síðan forstjóri GM Europe 2004 og stjórnarformaður Saab 2005, en Saab var þá komið í eigu GM. Hann mat mikils þá verkfræðiþekkingu, hugvit og frumleika sem var til staðar hjá Saab og uppskar viðurnefnið Saabvinurinn í yfirstjórn GM í Detroit fyrir það.

Sem forstjóri Opel og GM í Evrópu og stjórnarformaður Saab beitti hann sér mjög fyrir endurnýjun í framleiðslunni hjá Opel og Saab sem væri lykill að betra gengi tegundanna. Fyrir þessu barðist hann hart innan stjórnendateymis General Motors við hlið kempunnar Bob Lutz sem var sama sinnis. Ferill Carl-Peter Forsters tók svo snögglega endi haustið 2009 þegar hann lagðist eindregið gegn fyrirætlunum yfirstjórnar General Motors að selja eða leggja Opel niður.

Frá GM réðist hann þá til hins indverska Tata Motors sem þá hafði eignast Jaguar/Land Rover og gerði Carl-Peter Forster yfir að forstjóra þar. Í fyrra gerðist hann svo ráðgjafi Zhejiang Geely Holding Group sem á Volvo Personvagnar AB og nú hefur hann semsé tekið sæti í stjórn Volvo. Forstjóri og eigandi Geely; Li Shufu segir við sænska fjölmiðla að Forster búi yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu sem lýtur að evrópska bílaiðnaðinum sem hann miðli til stjórnarinnar. Þekking hans og djúpur skilningur á mikilvægi vöruþróunar sé mikilvægt veganesti fyrir Volvo í þeim umskiptum sem nú séu að eiga sér stað hjá fyrirtækinu.