Þungi framleiðslunnar verður í rafbílum

Bílaframleiðendur um allan heim horfa til framtíðar og er ljóst að þungi framleiðslunnar verður á rafbílum. Japansli bílaframleiðandin Toyota og Volkswagen eru með stór áform á þessu sviði en þetta kom glögglega í ljós í tilkynningu frá þeim á dögunum.

Toyota ætlar fyrir árið 2030 að koma með inn í markað hátt í 30 gerðir af rafmagnsbílum í ýmsum útfærslum. Sérstök áhersla verður lögð á hina svokölluðu bz-línu, ,,beyond Zero", sem marka mun miklar breytingar í framleiðslu á rafmagnsbílum.

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen sagði einnig frá enn meiri áherslu í framleiðslu á rafbílum á næsta áratug. Gríðarlegum fjármunum verður varið í þessa framkvæmd. Volkswagen er mjög framarlega í framleiðslu á þessum bílum í dag og er stefna fyrirtækisins að um 25% framleiðslunnar verði rafmagnsbílar fyrir árið 2025.

Mikil aukning hefur orðið í sölu á nýorkubílum í heiminum og þar fara Norðurlandaþjóðirnar fremstar í flokki. Nýleg norsk könnun leiðir í ljós að tveir af hverjum þremur í Noregi telja að nýorkubíll verði næst fyrir valinu í bifreiðakaupum. Um 65% Norðmanna svara því að rafbíllinn verði fyrsti kostur á næstu árum. Áhuginn er mestur hjá yngra fólki og hjá þeim sem hafa meiri menntun og hærri tekjur.

Í aldurshópnum 34-49 ára svara allt að 76% því til að rafbíll verði fyrir valinu sem næstu kaup. Í könnuninni kemur þó fram að dísil- og bensíneiegndur sveiflist fram og til baka í ákvörðunartöku sinni en íhugi á sama tíma að kaup á rafbíl væri skynsamur kostur sem vert er að skoða frekar.

Rafbílamarkaðurinn í Evrópu vex hratt og í september voru skráðir yfir 240.000 raf- og tengiltvinnbílar.  Markaðshluti tengilrafbíla var 19% og hreinna rafbíla 10%. Það sem af er 2021 er búið að nýskrá og selja yfir 1,3 milljónir raftengjanlega bíla í Evrópu.