Þyrfti að hætta að selja bensínbíla eftir þrjú ár

Stöðva þyrfti sölu á bensín- og dísilbílum eftir þrjú ár ef ná á því markmiði umhverfisráðherra, að rafbílavæða bílaflotann fyrir 2030. Þetta segir framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB segir það bratt hjá umhverfisráðherra að ætla að rafbílavæða íslenska bílaflotann á næstu þrettán árum. 

Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV sl. fimmtudagskvöld en Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, greindi frá því fyrr í vikunni að stefnt væri að því að allur bílaflotinn yrði rafbíla- eða metanvæddur fyrir árið 2030, eða eftir 13 ár. 

„Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta svolítið bratt og ég veit ekki alveg hvað hún á við með hennar stefna. Ég geri ráð fyrir að þetta fari í gegnum ríkisstjórn fyrst. Þarna er hún að fara 10 árum á undan Frökkum sem  hafa lagt í mikla vinnu við að skoða þetta landslag allt,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Hér má sjá frétt ruv.is um  málið.