Þýsk og ítölsk stjórnvöld grípa til aðgerða sem draga úr loftmengun

Borgaryfirvöld í Róm á Ítalíu hafa ákveðið að banna notkun dísilknúna bifreiða í miðborginni frá 2024 að telja í baráttunni við mengun í borginni sem aukist hefur mjög á síðustu árum. Fleiri borgir í Evrópu eru að skoða að fara þessa sömu leið og Rómarborg og banna þá í fyrstu dísilbíla frá miðborgunum.

Þetta bann sem tekur gildi eftir sex ár í Róm á einkum við um gamla dísilbíla sem menga mun meira en nýrri bílar. Bílaframleiðendur verða ennfremur varir við minnkandi áhuga á dísilbílum en í staðinn horfir almenningur í æ meira mæli til rafmagnsbíla.

Þýsk stjórnvöld ganga aðeins lengra en Ítalir í baráttunni sem lýtur að því að draga úr loftmengun og hafa  gefið út leyfi sem bannar akstur dísilbifreiða í ákveðnum borgarhverfum í landinu. Það var stjórnsýsludómstóll sem komst að þessari niðurstöðu sem vakið hefur mikla athygli.

Talið er að tífalt meira sót komi frá dísilbílum en bensínbílum en loftmengun af mannavöldum er að mestu svifryk. Bæði í Frakklandi og Bretlandi hafa verið viðraðar hugmyndir um að banna dísilbíla en lengra er sú umræða ekki komin.

Í Frakklandi eru dísilknúnir bílar yfirgnæfandi  alls bílaflotans sem er í umferð. Frönsk stjórnvöld gripu til þess ráðs fyrir nokkrum árum að fækka dísilbílunum mjög með því að skattleggja þá og eldsneytið á þá sérstaklega. Ástæðan er útblásturs- og öragnamengun sem telst heilsuspillandi.