Þýsku bílarnir draga þá japönsku uppi

http://www.fib.is/myndir/AudiA2-2005.jpg
Audi A2 - bilar minnst smábíla.

Þýskir bílar eru sem óðast að verða jafn góðir og japanskir bílar hvað varðar rekstraröryggi og bilanatíðni ef marka má bilanatölfræði ADAC, hins þýska systurfélags FÍB.

Vegaþjónusta ADAC heldur skrá yfir öll útköll vegna bilaðra bíla, hvað er að í hverju tilfelli og hvað var gert. Úr þessum upplýsingum eru unnar miklar tölulegar upplýsingar um bilanatíðni einstakra bílategunda sem félagið svo gefur út með vissu millibili. Í nýjustu tölfræðiútgáfu ADAC kemur fram að þýskir bílaframleiðendur hafa bætt sig umtalsvert undanfarið og eigendur sumra þýskra bíla eru þeir bifreiðaeigendur sem sjaldnast neyðast til að hringja á hjálp „Gulu englanna“ frá ADAC. Gulu englarnir eru gulklæddir vegaþjónustuliðar á gulum vegaþjónustubílum ADAC.

Í flokki smábíla er nú þýskur bíll í efsta sætinu – Audi A2. Í öðru sætinu kemur bíll frá þýskum framleiðanda en byggður í háskólabænum Oxford í Bretlandi. Það er BMW Mini. Í því þriðja er svo Honda Jazz. Af fimm ára gömlum bílum og eldri er Toyota Yaris sá gangvissasti..

Í flokki minni meðalbíla er sigurvegarinn Mazda 3 en Fiat Stilo vermir botnsætið og hefur tekið það að erfðum frá eldri bróður sínum; Fiat Bravo. Þá eru Renault Mégane og Renault Kangoo af árgerð 2002 og eldri neðarlega á lista.

Mercedes-Benz hefur greinilega sótt mjög í sig veðrið á ný því að eftir langt árabil er C-Benzinn kominn í efsta sætið í flokki stærri meðalbíla. Í öðru sæti er BMW 3 og í þriðja er Audi A4. Þá hefur Renault Laguna batnað verulega en er þó enn í tæpu meðallagi. Af fimm ára gömlum bílum er Toyota Avensis sá bíll sem sjaldnast bilar.

Í flokki lúxusbíla er Audi A6 efstur og af jeppum/jepplingum er Toyota RAV4 bestur en Mercedes-Benz M er slakastur, sérstaklega eldri gerðin.
Í flokki einrýmisbílanna sem stundum kallast fjölnotabílar er Premacy og Mitsubishi Space Star þeir bestu en Mercedes Benz V- /Vito sá slakasti.

Bilanatölfræði ADAC er byggð á tveimur milljónum útkalla á síðasta ári. Eins og oftasta áður eru bilanir í rafkerfi algengasta orsök þess að beðið var um aðstoð.
The image “http://www.fib.is/myndir/Bilanakaka.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.