Þýskur ráðherra á amerískum bíl
Margir Þjóðverjar ergja sig mjög þessa dagana yfir nýjum ráðherrabíl umhverfisráðherrans í sambandsríkinu Nordrhein-Westfalen. Þjóðverjar ætlast flestir til þess að ráðherrar bæði í ríkisstjórn alls ríkisins sem og í einstökum sambandsríkjum velji þýska bíla af betra taginu og að þeir séu helst svartir eða dökkbláir og annaðhvort Mercedes Benz E eða S, BMW 500 eða 700 eða þá Audi af stærstu og virðulegustu gerð. Nú hefur umhverfisráðherrann Johannes Remmel algerlega klikkað á þessu því hann endurnýjaði yfir í bandaríska bílinn Tesla S 90D.
Sjálfur skýrir umhverfisráðherrann bílaskipti sín með því að stöðu sinnar vegna beri honum að velja umhverfismildasta bíl sem völ er á en því miður geti enginn þýsku lúxusbílaframleiðendanna boðið upp á hreinan rafbíl sem sé jafn langdrægur og Tesla S og dragi um kjördæmið og til Berlínar þar sem sambandsþing og -ríkisstjórn Þýskalands eru til húsa. En það er ekki bara gagnrýnt að bílinn sé útlendur heldur skammar fólk líka ráðherrann fyrir það hversu bíllinn var dýr - kostaði á fjórtándu milljón ísl kr. Sjá frétt AutoBild
Tesla hefur átt frekar erfitt uppdráttar í Þýskalandi og mætt mótstöðu, jafnvel andúð. Nóg er vissulega af hleðslustöðvum um allt landið en engu að síður hafa kaupendurnir látið á sér standa og hafa fremur valið rafbílinn BMW i3 en af honum seldust tvöfalt fleiri eintök í Þýskalandi á sl. ári (2.863) en af Tesla (1.474). Til samanburðar þá seldust í fyrra í Þýskalandi 6.812 S-Benzar.
Í Þýskalandi hóf ríkið nýlega að gefa bílakaupendum fögur þúsund evra meðgjöf ( um 500 þús. ísl. kr) við kaup á rafbíl. En ef rafbíllinn kostar meira en 60 þúsund evrur (7,5 milljónir ísl.kr.) fæst ekki króna í meðgjöf. Það þýðir að fáir munu framvegis kaupa sér Tesla S þar sem engin gerð bílsins fæst á verði undir 60 þúsund evra markinu.