Tilboði Porsche í VW hafnað

The image “http://www.fib.is/myndir/Porsche_logo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Eins og ræðimenn um viðskipti höfðu reiknað með voru þeir ekki margir hluthafarnir í Volkswagen sem tóku yfirtökutilboði Porsche í Volkswagen. Samkvæmt þýskum lögum um fyrirtæki skal sá sem eignast yfir 30% í því gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð og það var það sem Porsche gerði á dögunum. Fyrir átti Porsche 31% í Volkswagen eftir að hafa aukið hlut sinn fyrr á árinu.

Porsche hafði fengið bankaábyrgðir upp á 35 milljarða evra til að geta snarað út fyrir hlutabréfunum ef svo skyldi fara að hluthafarnir tækju tilboðinu, en til þess kemur ekki og peningarnir eru óhreyfðir.

Með sína 31% eignaraðild er Porsche stærsti einstaki hluthafi í VW. En meðan fulltrúar starfsmanna í stjórn VW eru hliðhollir Porsche og hinum vel tengda og vinsæla stjórnarformanni, Ferdinand Piëchs, er talið að Porsche geti ráðið stefnunni hjá Volkswagen að mestu leyti. Þess skal getið að Ferdinand Piëchs er barnabarn Ferdinands Porsche stofnanda Porsche og upphaflegs hönnuðar Volkswagen bjöllunnar. Hann er jafnframt einn stærsti hluthafinn í Porsche.