Tilboðsmerkingar 100 bíla ehf.

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart bílasölunni 100 bílar vegna tilboðsauglýsinga fyrirtækisins. Að því fram kemur í tilkynningu Neytendastofu barst ábending þar sem kvartað var yfir að bifreiðar voru auglýstar á tilboði án þess að fyrra verð væri tilgreint og að tilboðið hafi varað lengur en í sex vikur. Þá var kvartað yfir að þrátt fyrir að auglýst hafi verið að um takmarkað magn væri að ræða kæmi ekki fram í auglýsingunum hversu margar bifreiðar væru fáanlegar á tilboðsverði.

Í svörum 100 bíla kom fram að ef bifreið er merkt á tilboði sé tilboðsfjárhæðin sú lágmarksfjárhæð sem seljandi vilji fá í hendurnar án þess að útiloka að tekin sé bifreið upp í verðið.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið um raunverulega verðlækkun að ræða, þrátt fyrir að bifreiðar væru auglýstar á tilboði. Jafnframt taldi stofnunin að auglýsingar 100 bíla þar sem fyrra verð var ekki gefið upp og tilboð auglýst lengur en sex vikur væru villandi gagnvart neytendum. Þá taldi stofnunin að auglýsingar fyrirtækisins um að takmarkað magn væri í boði, án þess að taka fram hversu margar bifreiðar væru á tilboði, væru villandi gagnvart neytendum og til þess fallnar að hafa áhrif á fjárhagslega hegðun þeirra.

Neytendastofa taldi því rétt að banna 100 bílum ehf. að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti.

Ákvörðunina má nálgast hér.