Tilrauna-leigubíll í Þýskalandi

 

Örsmár tveggja farþega leigubíll verður tekinn í notkun í München í Þýskalandi á næsta ári. Bíllinn sjálfur er lítið stærri um sig en tveggja manna rafmagns-borgarfarartækið Twizy frá Renault, er rafknúinn og með útskiptanlegum rafhlöðum. Hann getur því verið í samfelldri notkun allan sólarhringinn ef því er að skipta því aðeins augnablik tekur að fjarlægja tómar rafhlöður og renna fullhlöðnum í bílinn í þeirra stað.

Bíllinn var sýndur opinberlega alveg nýlega en hönnun, smíði hans og þróun hefur verið í gangi um nokkurt skeið. Umsjón með því hefur félagsskapur sem nefnist Adaptive City Mobilität í München. Að honum koma þýska atvinnu- og orkumálaráðuneyti Bayern-ríkis, hönnuðurinn Peter Naumann sem er deildarforseti hönnunardeildar háskólans í borginni, Johann Tomforde sem á sínum tíma var einn þeirra sem hannaði Smart smábílinn, tæknifyrirtækin Siemens og Fraunhofer, tækniháskólinn í Aachen, ofursportbílasmiðjan Roding o.fl.

Bíllinn er í höfuðatriðum hannaður eins og borgarbíllinn T25 sem breski ofurbílahönnuðurinn Gordon Murray hannaði fyrir um áratug. Það þýðir að ökumaðurinn situr fyrir miðju en aftan við hann og til sinnar hvorrar handar sitja farþegarnir. Lokuð farangursgeymsla er svo aftan við farþegasætin. Á sama hátt og Renault Twizy er bíllinn skilgreindur sem fjórhjól í þeim flokki ökutækja sem nefnist L7e og fyrst og fremst ætlaður til nokunar í þéttbýli.

Rafhlöðurnar sem geyma strauminn sem knýr bílinn eru í skúffu undir miðjum bílnum. Þegar lækka tekur á þeim er skúffan einfaldlega tekin og önnarri með fullhlöðnum rafhlöðum rennt inn. Engar tengingar eins og geymasambönd þarf að skrúfa lausar þannig að rafhlöðuskiptin taka einungis augnablik.