Tilraunastöð fyrir bíla framtíðarinnar

Stöðugt er unnið að því að endurbæta öryggisþætti bíla og er Volvo í Svíþjóð í fararbroddi í þeim efnum sem fyrr. Tekin hefur verið í notkun í Svíþjóð ný rannsókna- og tilraunastöð þar sem unnið verður að þróun virks öryggisbúnaðar í bílum. Stöðin sem heitir Asta Zero er vel falin inni í furuskógi í vestanverðri Svíþjóð, í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Gautaborg.

Í stöðinni er mögulegt að búa til margskonar akstursaðstæður og láta m.a. dúkkur og allskyns dýr stökkva skyndilega út úr portum og görðum í veg fyrir bíla á ferð á götum og vegum og láta brúður á reiðhjólum koma á fullri ferð fyrir húshorn og í veg fyrir bílana. Með þessu verður hægt að prófa sjálfkeyrandi bíla, sjálfvirkan hemlunarbúnað þeirra og auðvitað líka venjulega hemla og athygli raunverulegra ökumanna eða kannski öllu heldur athyglisskort.

Aksturssvæði stöðvarinnar er sett upp að hluta til eins og hluti af Harlem-hverfi í New York en stöðin er sú fyrsta sinnar tegundar sem sett er upp í réttum stærðarhlutföllum. Volvo og fleiri aðilar, þeirra á meðal opinberir, áttu frumkvæðið að uppsetningu stöðvarinnar en hún er af hálfu stofnaðilanna hluti sænsku „núll-lausnarinnar“ og þess markmiðs Volvo að frá og með árinu 2020 láti engin manneskja lífið né slasist alvarlega í bíl frá Volvo.

Asta Zero stöðin er gríðarstór. Flatarmál svæðisins er tvær milljónir fermetra að stærð og hreint ekki í alfararleið þarna inni í skóginum milli bæjanna Borås og Allingås. Svæðið er rækilega afgirt með þriggja metra hárri mannheldri girðingu og varnarveggjum sem hindra að hægt sé að mynda það sem fram fer utanfrá.  Auk eftirlíkingarinnar af Harlem hverfinu er einnig innan svæðisins sex kílómetra langur dæmigerður sveitavegur, 700 metra löng fjögurra akreina hraðbraut og dropalöguð hraðakstursbraut. Allar hafa þessar brautir hver um sig sinn eigin stjórnturn enda verða m.a. ökumannslausir sjálfkeyrandi bílar og önnur ökutæki af öllum stærðum og gerðum prófaðar á þeim við flestar mögulegar og hugsanlegar aðstæður. 

http://fib.is/myndir/Testbana-2000.jpg