Tilraunir í Danmörku með gúmmímalbik mislukkuðust

http://www.fib.is/myndir/Malbikun.jpg
Tilraun var nýlega gerð í Danmörku með að tæta niður gamla hjólbarða og blanda þeim í malbik. Tilgangurinn var tvíþættur: Annarsvegar var ætlunin að draga úr umferðargný og hins vegar að nýta gamla hjólbarða. Verst var að árangurinn varð ekki góður, malbikið reyndist mjög lélegt, holur og sprungur mynduðust í það strax á fyrsta árinu og þurfti að rífa það upp og leggja nýtt í þess stað.

Í Danmörku líkt og annarsstaðar í Evrópu er stöðugt verið að gera tilraunir með ný efni í slitlag á vegi og götur í því skyni að fá fram betri vegi. Malbik er blanda af möl og tjöru og er tjaran yfirleitt úrgangsefni eða botnfall úr framleiðslu dísilolíu og bensíns úr jarðolíu. Megingaldurinn við gott malbik er hlutfall tjöru og malar og grófleiki malarinnar.