Tíu jarðgöng verða í samgönguáætlun til næstu þrjátíu ára

Tíu jarðgöng verða í sam­göngu­áætlun til næstu þrjátíu ára og fern önn­ur til sér­stakr­ar skoðunar. Þetta kom fram að loknum ríkisstjórnarfundi sl. föstudag. Fram kom í viðtali við innviðarráðherra á mbl.is að hann hefði auðvitað viljað fá miklu meiri pen­inga og fara í fleiri fram­kvæmd­ir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðarráðherra, segir þetta vera „nán­ast“ öll þau jarðgöng sem hafi verið til um­fjöll­un­ar síðustu árin. Jarðgöng um Mikla­dal og Hálf­dán á sunn­an­verðum Vest­fjörðum séu á þess­um lista. Sveit­ar­stjór­ar þar telja þau lyk­il­inn að far­sælli sam­ein­ingu Tálkna­fjarðar­hrepps og Vest­ur­byggðar.

Sigurður Ingi seg­ir fleiri fram­kvæmd­ir munu bæt­ast við á seinni hluta fimm ára áætl­un­ar og síðan á öðru til þriðja tíma­bili sam­göngu­áætlun­ar­inn­ar.

Á vegakerfinu í dag eru 12 jarðgöng sem alls eru 64 km að lengd. Auk þeirra hafa verið grafin Oddskarðsgöng sem voru aflögð þegar Norðfjarðargöng voru tekin í notkun og jarðgöng undir Húsavíkurhöfða sem ekki eru opin almennri umferð.

Í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi 29. júní 2020 er gerð grein fyrir forgangsröðun og fjármögnun næstu jarðgangakosta. Samkvæmt því eru næstu jarðgöng Fjarðarheiðargöng til Seyðisfjarðar og í framhaldinu eru Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng.