Tíu milljarðasta neistakertið

http://www.fib.is/myndir/Kerti.jpg

Ekki er langt síðan tíu milljarðasta neistakertið fyrir bensínvélar rann af færibandinu hjá Bosch í Bamberg í Þýskalandi. Í Bamberg hefur megnið af kertaframleiðslu Bosch átt sér stað eða átta milljarðar stykkja frá stofnun verksmiðjunnar árið 1939. Ef menn hugsuðu sér að öll þessi kerti yrðu lögð á jörðina með enda við enda, myndu kertin teygjast yfir 560 þúsund kílómetra eða um 14 sinnum umhverfis jörðina um miðbaug.

Árleg kertaframleiðsla Bosch er nú um 300 milljónir stykkja. Það er umtalsvert meira en var fyrir einni öld þegar ársframleiðslan var einungis nokkur hundruð. 105 ár eru nú síðan Bosch afhjúpaði fyrsta neistakertið ásamt segul—háspennukveikju fyrir brunahreyfla. Það gerðist þann 7. janúar 1902. Kertið fékk háspennustraumpúls frá segulkveikjunni og við það hljóp neisti milli póla kertisins sem kveikti í bensínblöndunni í brunahólfi mótorsins. Þetta þótti talsvert byltingarkenndur búnaður fyrir 105 árum og eitt er víst að hann hefur staðist tímans tönn því hann er enn í bílum og óbreyttur í grundvallaratriðum.

Meðal bílaframleiðenda sem afhendir nýja bíla með kertum frá Bosch eru Alfa Romeo, Audi, BMW, Cadillac, Citroen, Daewoo, Mercedes Benz, Chrysler, Fiat, Ford, GM, Lancia, Mitsubishi, Opel, Peugeot, Porsche, Renault, Saab, Seat, Skoda, Ssangyong, Suzuki, Toyota, Vauxhall, Volvo, og Volkswagen.