Tíu minnst seldu bílarnir í Þýskalandi í fyrra

 

Sala nýrra bíla gengur á fáum stöðum í hinum vestræna heimi verr en á Íslandi um þessar mundir. Öll tölfræði um vinsældir einstakra tegunda og gerða bíla er því í skötulíki. Þótt samdráttur hafi verið nokkur í sölu nýrra bíla annarsstaðar, t.d. Þýskalandi er hann auðvitað ekkert í hlutfallslegri líkingu við það sem gerst hefur á Íslandi.

En tegundir og gerðir bíla ganga misvel í kaupendur og tímaritið Der Spiegel hefur tekið saman lista yfir þá tíu bíla sem verst gekk að selja Þjóðverjum á nýliðnu ári.

Margir þessara illseljanlegu nýju bíla eru um flest ágætis vagnar, traustir og vandaðir, en engu að síður hafnaði þýski markaðurinn þeim nánast algjörlega. Sumir þeirra hafa reyndar gert tilraun til landgöngu á Íslandi eins og t.d. lúxusbíllinn Kia Opirus. Opirus fékkst á Íslandi fyrir hrun en áhuginn fyrir honum reyndist sáralítill. Öðrum af þessum „fallbílum“ hefur hins vegar vegnað betur hér, eins og t.d. Ssang Yong Kyron og Rexton jeppunum, en lítum á lista Þjóðverjanna:

http://www.fib.is/myndir/Opirus.jpg
 

Kia Opirus

Opirus er flaggskip Kia vörumerkisins. Flestir geta verið sammála um að í útliti sé þessi bíll ekki beint fagur. Að sumu leyti svipar honum til Mercedes E en líka má sjá Jaguar drætti í honum og síðan hefðbundna japanska. Allt blandast þetta heldur illa saman. FÍB blaðið kynntist bílnum lítillega sumardag einn fyrir tæpum tveimur árum og ekki varð annað fundið en hann væri ágætur í akstri. Að því leyti skar hann sig ekkert úr lúxusbílum af svipaðri stærð. Að innan var hann rúmgóður og þægilegur og allur frágangur og innri búnaður með flottasta móti.

En það dugði Þjóðverjum ekki þótt þessi lúxusbíll kosti einungis innan við helming þess sem  jafn vel útbúinn Mercedes S kostar, eða BMW 7. Aðeins 12 bílar seldust í Þýskalandi af Kia Opirus á síðasta ári. Verðið var kr. 7.182.000,-.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-bcs.jpg
 

Cadillac BLS

Þessi Cadillac var kynntur með nokkrum fyrirgangi í Frankfurt fyrir um þremur árum. Hann var af hálfu General Motors sérstaklega hugsaður fyrir Evrópumenn og meira að segja skrúfaður saman í verksmiðju Saab í Trollhattan í Svíþjóð. Tæknilega séð er Cadillac BLS blanda af Opel Vectra og Saab 9-3, þannig að þetta er að öllum líkindum hinn ágætasti bíll. En evrópskir bílakaupendur höfnuðu bílnum algjörlega og mun talsverður lager vera til af þessum bíl í Svíþjóð og sjálfsagt víðar. Í Þýskalandi seldust á síðasta ári einungis 28 eintök af Cadillac BLS.

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-CTS.jpg
 

Cadillac CTS

Þetta er bíllinn sem bílamaðurinn Bob Lutz hinn 78 ára litríki orðhákur og framleiðslustjóri General Motors sagði að væri besti og hraðskreiðasti færibandabyggði og óbreytti bíll í veröldinni í sínum flokki. Honum var gert að standa við orð sín á kappakstursbraut í Bandaríkjunum og gerði það – og viti menn. Karlinn reyndist hafa sagt satt. Cadillac CTS er sambærilegur við Audi A6, Mercedes E og BMW 5 en ódýrari. Það virðist samt ekki hafa nægt Þjóðverjunum því að einungis 32 Þjóðverjar keyptu nýjan Cadillac CTS á síðasta ári.

http://www.fib.is/myndir/SubaruTrib.jpg
 

Subaru Tribeca

Subaru Tribeca þótti óvenjulega ljótur bíll þegar hann kom fyrst fram. Hönnuðirnir sáu því sitt óvænna og löguðu framenda bílsins þannig að nú er svosem ekkert sérstaklega hægt að kvarta undan því lengur eins og myndin sýnir. Varla leikur vafi á því að þetta er slitsterkur og endingargóður bíll eins og Subarubílar eru yfirleitt. Tribeca er nokkurskonar lúxus-jepplingur með 3,6 l, 258 ha, sex strokka boxervél. En Þjóðverjarnir voru samt ekki ginnkeyptir fyrir honum og einungis 37 bílar seldust á síðasta ári í Þýskalandi. Verðið var kr. 8.082.000,-.

http://www.fib.is/myndir/SsangYongActy.jpg
 

Ssang Yong Actyon

Þetta er jeppi frá Kóreu og með þeim ólögulegri sem þaðan hafa komið og virðast þó menn lítt víla fyrir sér að hanna ljót farartæki þar eystra. En heldur gekk þó skár að koma honum út í Þýskalandi heldur en Subaru Tribeka bílnum her að framan því að 43 Ssang Yong Actyon seldust í Þýskalandi í fyrra.

 

 

http://www.fib.is/myndir/SsangyongRexton.jpg
 

Ssang Yong Rexton

Ssang Yong Rexton er heldur skár útlítandi en Actyon. Þessi bíll hefur náð nokkurri fótfestu á Íslandi enda boðinn á nokkuð viðráðanlegu verði miðað við sambærilega jeppa af öðrum tegundum. Í Þýskalandi seldust  á síðasta ári 46 Rexton jeppar.

 

 

http://www.fib.is/myndir/Ssangyoun-Kyron.jpg
 

Ssang Yong Kyron

Ssang Yong Kyron hefur sömuleiðis náð nokkurri fótfestu á Íslandi enda þótt fáum finnist bílinn fagur í útliti. Sérstaklega kauðaleg er hin upphallandi lína aftur með hliðum bílsins og svo ekki síður bakhlutinn sjálfur sem er  hörmulega ljótur ásýndum. En hið sama gildir um Kyron eins og Rexton hér á landi að hann hefur fengist á góðu verði miðað við sambærilega jeppa og reynst ágætlega. 56 eintök seldust í Þýskalandi af Kyron á síðasta ári.

http://www.fib.is/myndir/Lexus.jpg
 

Lexus LS

Þetta er flaggskip lúxusbílalínu Toyota. Afbragðsbíll og fáanlegur sem hreinn bensínbíll eða tvinnbíll. Hið innra er allur hugsanlegur lúxus enda er þetta bíll sem hugsaður er fyrir fyrirmenni, þjóðhöfðingja og jafnvel útrásarvíkinga. Hann er sagður vera á pari við bíla eins og Rolls Royce og Bentley og verðmiðinn er að nokkru í samræmi við það, eða kr. 15.633.000,-. Kaupendurnir voru hins vegar ekki á pari við evrurnar á verðmiðanum því einungis 57 þjóðverjar keyptu sér svona bíl á síðasta ári.

http://www.fib.is/myndir/CadillacEsc.jpg
 

Cadillac Escalade

Þetta finnst blaðamönnum á Der Spiegel ekki eftirsóknarverður bíll, allt of stór og þungur (2,6 tonn) og bensínþyrstur í fyrsta lagi. Og í öðru lagi aki gítarleikarinn Tom Kaulitz í hljómsveitinni Tokio Hotel um í svona bíl og það eitt ætti að vera nóg ástæða til að láta ekki sjá sig á Cadillac Escalade. En engu að síður lét 61 Þjóðverji það sem vind um eyru þjóta á sl. ári.

 

 

http://www.fib.is/myndir/Peugeot607.jpg
 

Peugeot 607

Peugeot 607 var mikið auglýstur í Þýskalandi á fyrri hluta síðasta árs sem „þýskur“ bíll, eða bíll með alla bestu eiginleika þýskra bíla. Þetta er bíll svipaður að stærð og BMW 5 línan með 2,7 lítra V6 dísilvél. Hann seldist í 103 eintökum í Þýskalandi sl. ár og kostaði kr. 8.451.000,-