Tíundi hver Þjóðverji fullur á bílnum

The image “http://www.fib.is/myndir/Akafullur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Hert eftirlit með ökumönnum í Evrópulöndum á jólaföstu hefur leitt í ljós að 11% ökumanna í Þýskalandi sem stöðvaðir voru, höfðu of hátt áfengismagn í blóðinu undir stýri. Langverst var ástandið á ökumönnum í Moldavíu þar sem annar hver ökumaður reyndist ölvaður. Best var ástandið á ökumönnum hins vegar í Svíþjóð og Finnlandi. Auto Motor & Sport greinir frá þessu.

Umferðarlögregludeildir í Evrópu hafa með sér samvinnuvettvang sem nefnist TISPOL. Vikuna 10.-16. desember voru milljón ökumenn í 23 Evrópulöndum stöðvaðir og látnir gangast undir áfengismælingu að frumkvæði TISPOL. Árangur átaksins var ekkert sérlega uppörvandi en þó misjafn eftir löndum. Í Þýskalandi reyndust 10.647 ökumenn af 96.190, eða 11 prósent hafa innbyrt of mikið áfengi. Af Evrópusambandsríkjum var ástandið að þessu leyti verst í Þýskalandi og næst verst í Slóveníu þar sem 5,7 ökumanna höfðu drukkið of mikið.

En þótt Þjóðverjarnir hafi reynst slæmir voru þó ökumenn Moldavíu – sem ekki er í Evrópusambandinu – þó sýnu verri því að 45 prósent þeirra sem áfengisprófaður voru reyndust hafa drukkið of mikið.

Best var ástandið á sænskum og finnskum ökumönnum. Af þeim sem þar voru áfengismældir reyndust aðeins 0,3 prósent hafa of mikið áfengi í blóðinu.

Meðal áfengismagn ökumannanna í öllum löndunum 23 reyndist vera 2,5 prósent. Í samskonar átaki fyrir einu ári var meðaltalið 2,1 prósent.

Árlega láta um 40 þúsund manns lífið í umferðarslysum í Evrópu þar sem akstur undir áfengisáhrifum kemur við sögu.