Tívolí-Musso?

SsangYong Tivoli.
SsangYong Tivoli.

SsangYong Musso frá S. Kóreu var talsvert vinsæll jeppi hér á landi um skeið. Nú er kominn fram nýr bíll frá SsangYong. Það er jepplingur sem hefur gerðarheiti sem minnir á Kaupmannahöfn – Tivoli. SsangYong hefur átt í rekstrarörðugleikum undanfarin ár en er nú komið í eigu indverska bílaframleiðandans Mahindra.

Tivoli er þegar kominn á markað í Noregi og á bílasýningunni í Genf verður frumsýnd lengd gerð (XLV) þessa bíls. Tivoli er jepplingur af minni millistærð (B-stærðarflokkur) og fæst bæði með framhjóla- og með sítengdu og læsanlegu aldrifi. Á Evrópumarkaði keppir hann við bíla eins og t.d. Opel Mokka, Nissan Juke og Fiat 500 X

Í Noregi er Tivoli aðeins í boði með fjórhjóladrifinu. Hann er fáanlegur með bæði bensín- og dísilvélum en aðalvélin sem er í boði í Noregi er 115 ha. dísilvél og við hana er sex gíra handskiptur gírkassi. Drifkerfið er sjálfvirkt en með handvirkum driflæsingum fyrir mjög erfiðar aðstæður. Leðurinnrétting er staðalbúnaður sem og start/stopp búnaður auk skrikvarnar, radarsjónar, kant- og miðlínulesara, bakkmyndavélar og alls kyns öðrum nýjasta öryggisbúnaði. Þannig búinn gæti verðið hér orðið um 4,5-5 milljónir kr.