Tökum heppnina úr umferð

http://www.fib.is/myndir/VIS-logo.jpg

Sjötta þjóðarátak VÍS gegn umferðaslysum hófst í síðustu viku. Að þessu sinni er átakinu einkum beint gegn nokkrum meginþáttum sem hver um sig er meðal algengustu orsaka umferðaslysa hér á landi. Auk hraðaksturs eru það, ölvunarakstur, farsímanotkun undir stýri og önnur ökuhegðun sem slævir athygli og einbeitingu í akstri.

Yfirskrift þjóðarátaksins er að þessu sinni „Tökum heppnina úr umferð“ og vísar hún til þess að það þýðir ekki að treysta á heppni í umferðinni. „Það getur verið að menn komist upp með að aka of hratt eða að sýna aðra óábyrga hegðum í umferðinni í einhvern tíma af því að heppnin er með þeim. En þegar heppnin er ekki lengur með í för geta afleiðingarnar orðið hrikalegar. Um það eru því miður allt of mörg átakanleg dæmi,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, forvarna- og öryggismálafulltrúi VÍS, sem  kynnti átakið fyrir fjölmiðlamönnum ásamt Ásgeiri Baldurs framkvæmdastjóra félagsins.

Um leið og átakinu var ýtt úr vör  var opnuð ný slóð á vefsíðu VÍS að samskiptavef þar sem almenningi gefst kostur á að afla sér upplýsinga og miðla eigin upplýsingum og reynslu af umferðinni til annarra. Það var Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir sem opnaði vefsíðuna en rétt rúmt ár er liðið frá því að Þórarinn Sævar Guðmundsson, 15 ára sonur Bergþóru lést í bílslysi í kjölfar ofsaaksturs í Öxnadal þann 17. júní í fyrra en auk hans lést í slysinu 18 ára ökumaður bílsins.

„Við sjáum þennan vef fyrir okkur sem samstarfsvettvang okkar og almennings, nokkurs konar þjóðarsál vegfarenda. Það er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að minnka fórnarkostnaðinn sem umferðaslysin leggur á almenning í landinu. Þess vegna langar okkur að virkja almenna vegfarendur og fá þá til að deila með okkur sinni reynslu úr umferðinni og koma með ábendingar um það sem betur má fara. Við
munum einnig leita svara við spurningum sem kunna að brenna á fólki og birta þau á vefnum og koma ábendingum vegfarenda áfram til réttra aðila“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir.

Hluti af þjóðarátaki VÍS er viðamikil auglýsingaherferð í blöðum og ljósvakamiðlum gegn umferðaslysum. Í frétt frá VÍS segir að talið sé að áróður og fræðsla sé ein áhrifaríkasta leiðin til að hafa áhrif á hegðunarmynstur í umferðinni.  Síðustu ár hafi sterkur boðskapur í auglýsingaherferðum VÍS vakið vegfarendur til umhugsunar um afleiðingar óábyrgrar hegðunar í umferðinni og með þeim hætti hefur félagið lagt sitt af mörkum til að auka öryggi og stemma stigu við óhöppum og slysum. Á næstu vikum mun VÍS birta nýjar og sláandi, útvarps-, sjónvarps- og blaðaauglýsingar þar sem yfirskriftin er „Tökum heppnina úr umferð“.

http://www.fib.is/myndir/VIS-Vefur.jpg
Bergþóra Harpa Þórarinsdóttir (th.) opnar nýja samskiptasíðu um umferðaröryggismál á vef VÍS í dag. Þann 17. júní sl. var liðið eitt ár frá því að sonur hennar lést í umferðaslysi í kjölfar hraðaksturs í Öxnadal. Með henni á myndinni er Ragnheiður Davíðsdóttir forvarna- og öryggismálafulltrúi VÍS.