Top Gear upptökur á Íslandi

The image “http://www.fib.is/myndir/JeremyiCrossf.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Jeremy Clarkson fellir blæjuna á Chrysler Crossfire við Ölfusárósa.
Lið frá BBC-2 hefur undanfarna daga verið að taka upp efni hér á landi fyrir hinn vinsæla bílaþátt Top Gear. Aðalstjórnandi þáttarins, Jeremy Clarkson og þeir Richard Hammond og James May meðstjórnendur hans eru hér einnig og hafa myndatökur farið fram á Reykjanesi, í Hvalfirði, Nesjavöllum, Þingvöllum, við ósa Ölfusár og víðar.
Top Gear er vinsælasti dagskrárþáttur BBC nokkru sinni. Hann er ekki einungis gríðarlega vinsæll í Bretlandi, heldur líka í velflestum öðrum Evrópulöndum. Hér á landi fylgjast margir með þættinum þegar hann er sýndur á BBC-Prime rásinni á þriðjudagskvöldum. Vinsældir Top Gear þykja með nokkrum ólíkindum þar sem um er að ræða hreinræktaðan bílaþátt. En vinsældirnar má án efa rekja til stjórnendanna en þeir eru sjaldan að skafa utan af því hvað þeim finnst um bílana sem þeir reynsluaka og fjalla um. FÍB blaðið var viðstatt myndatökurnar á fimmtudaginn og föstudaginn og var ekki að heyra á þeim félögum að þeim þætti mikið til bílanna koma sem þeir eru að mynda hér á landi - Þetta eru allt hundleiðinlegar tíkur- sagði Jeremy Clarkson við FÍB blaðið og glotti sposkur. Að svo mæltu klofaði hann yfir hraunsprungu við Flosagjá á Þingvöllum, talaði í sjónvarpstökuvél BBC og sagði um leið og hann klappaði á hægra læri sér: -Þessi fótur er staddur í Ameríku. Hann heimtar að fá Hamborgara að éta.- Svo klappaði hann á vinstra læri sér og sagði. Þessi hér er staddur í Evrópu. Hann vill fá expressó kaffi.-
Bílarnir - þessar hundleiðinlegu tíkur - eins og Clarkson orðaði það, eru þrír blæjusportbílar; Nissan Z 350, Chrysler Crossfire og Audi TT Quattro. Þeir voru fluttir hingað til lands með flutningaskipi og biðu þeirra þremenninga í Keflavík þegar þeir lentu sl. miðvikudag. Í gær fóru myndatökur fram á söndunum í ósum Ölfusár og var m.a. notuð þyrla við myndatökurnar. Tökum lýkur á morgun og verður afraksturinn sýndur í Top Gear í miðjum næsta mánuði.
Bretarnir sögðust vera mjög ánægðir með það efni sem þeir hafa aflað hér. Allar aðstæður væru óvenjulegar, veðrið og birtuskilyrðin hefðu leikið við þá og þeir sögðust vissir um að áhorfendur muni kunna að meta það sem þeir munu sjá héðan.
The image “http://www.fib.is/myndir/Nissanspol.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Tekið hressilega af stað á Nissan 350 Z
The image “http://www.fib.is/myndir/ThyrlaCrossf.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Myndatökumaður BBC myndar úr dyrum þyrlunnar.