Toyota á Íslandi til sölu

Ríkisútvarpið og Viðskiptablaðið greina frá því í dag að samkomulag hafi náðst milli skilanefndar Landsbankans og Magnúsar Kristinssonar, eiganda Toyota á Íslandi, um að öll hlutabréf í félaginu verði seld. Nýi Landsbankinn mun sjá um sölu hlutabréfanna.

Magnús keypti Toyotaumboðið rétt fyrir jólin árið 2005 af Páli Samúelssyni og fjölskyldu hans í gegn um einkahlutafélag sitt, Smáey. Kaupverðið var að sögn Viðskiptablaðsins um sjö milljarðar króna og Landsbankinn fjármagnaði kaupin. Rífandi gangur var á fyrirtækinu þegar kaupin áttu sér stað og á bílainnflutningi og –sölu almennt séð og var Toyota þá lang söluhæsta einstaka bílategundin á Íslandi með fjórðungs markaðshlutdeild.

Í yfirlýsingu sem Magnús Kristinsson hefur sent frá sér í tilefni frétta af sölu Toyota segir að salan sé liður í viðbrögðum við stórfelldri aukningu á skuldum félaga í hans eigu við bankann.

„Fyrir áeggjan stjórnenda Landsbankans tókst ég á hendur miklar skuldbindingar til að varna því, að Gnúpur fjárfestingarfélag ehf. yrði gjalþrota í lok árs 2007. Jafnframt dróst ég til að verða stór hluthafi í Landsbankanum hf. Við fall bankanna og fleiri félaga hurfu gríðarlegar eignir á einni nóttu en skuldir hafa vaxið með falli krónunnar, eins og allir þekkja. Sala eigna verður því ekki umflúin," segir Magnús í yfirlýsingu sinni. Sjá einnig frétt FÍB frá 5. nóv. sl.