Toyota að ná flugi eftir náttúruhamfarirnar

Bílaframleiðsla Toyota varð hart úti í náttúruhamförunum sem gengu yfir Japan 11. mars. En framleiðslan er aftur að komast á fyrra flug samkvæmt frétt frá Toyota og útlit er fyrir að full afköst náist á ný talsvert fyrr en ætlað var. Í júní nk. segir að bílaframleiðslan verði orðin 70% af því sem hefði verið ef jarðskjálftarnir og flóðfylgjurnar hefðu ekki brostið á. Í mars sl. var bílaframleiðsla Toyota þannig um 170 þúsund bílum minni en hún hefði ella orðið.

Frá og með 1. júní  nk. verða fimm af verksmiðjum Toyota í Evrópu reknar á fullum og eðlilegum afköstum, einungis einum mánuði eftir að þær nánast stöðvuðust vegna skorts á íhlutum í kjölfar hamfaranna í Japan. Þetta er mögulegt vegna þess hve vel hefur þrátt fyrir allt gengið að koma íhlutaverksmiðjunum í Japan í gang á ný. Verksmiðjurnar fimm sem brátt komast í full afköst á ný eru tvær í Bretlandi; Burnaston (Avensis, Auris og Auris Hybrid) og Deeside vélaverksmiðjan. Ein er síðan í Tyrklandi (Auris og Verso) og loks vélaverksmiðja Toyota í Póllandi. Toyotaverksmiðjan í Frakklandi sem framleiðir Yaris er hins vegar þegar komin á full afköst. Það gerðist 16. maí sl.