Toyota að verða stærst

The image “http://www.fib.is/myndir/ToyotaAvensis2006.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Toyota Avensis 2006.
Toyota er nú þegar orðið stærra bílaframleiðsluveldi en Ford sem hingað til hefur verið næst stærsta bílaframleiðsluveldi heimsins. Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að Toyota sigli líka fram úr GM strax á nýju ári. GM hefur lengi verið stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar en á nú í gríðarlegum erfiðleikum og þær uppsagnir og verksmiðjulokanir sem GM tilkynnti nýlega munu þýða framleiðslusamdrátt hjá GM um milljón bíla á nýju ári. Það stefnir því í að Toyota nái markmiðum sínum fyrr en stjórnendurnir gerðu ráð fyrir og fyrirtækið verði hið stærsta sinnar tegundar fyrir árslok 2006.
Það er gömul hefð meðal bílaáhugamanna að tala um hina þrjá stóru, það er að segja bandarísku bílafyrirtækin GM, Ford og Chrysler, en það á vissulega ekki við lengur þótt það ætti við á áttunda og níunda áratugi síðustu aldar þegar þessi fyrirtæki ríktu yfir bandaríska bílamarkaðnum.
Síðan þá hefur mikið vatn til sjávar runnið og Toyota er orðið næst stærst, komið greinilegum sjónarmun fram úr Ford. Markmið Toyota hefur undanfarið verið að vaxa um 10% á ári og það hefur fyrirtækið gert í fyrra og einnig í ár þótt lokatölur liggi ekki fyrir. Stjórnendur Toyota hafa ekki viljað hafa vöxtinn hraðari en 10% á ári. Þeir hafa sagt að hraðari vöxtur auki hættu á slakari gæðum framleiðslunnar.
En gangi 10% vaxtarmarkmiðið fram á næsta ári þá þýðir það að Toyota siglir fram úr GM og verður þar með stærsta bílaframleiðslufyrirtæki heims með 9,2 milljón bíla ársframleiðslu en GM með 9,1 milljón bíla í mesta lagi.