Toyota dregur saman seglin

http://www.fib.is/myndir/ToyotaPrius.jpg
Toyota Prius.

Samkvæmt nýrri akvörðun stjórnar Toyota verður ekkert af framleiðslu á Toyota Prius í Missisippi í Bandaríkjunum. Til stóð að fjárfesta fyrir 1,3 milljarða dollara og m.a. reisa nýja verksmiðju til að mæta eftirspurn eftir Toyota Prius í Bandaríkjunum. Vegna yfirvofandi kreppu hafa þessar fyrirætlanir verið lagðar á ís.

Velgengni Toyota á bandaríska bílamarkaðinum undanfarin ár hefur verið einstök og án fordæma í sögu bílaiðnaðarins. En nú dynur kreppa yfir iðnaðinn. Hun hófst með hinum gríðarlegu hækkunum á eldsneyti og ekki lagaðist það þegar fjármálakreppa hélt innreið sína nú síðsumars með gríðarlegum samdrætti í sölu nýrra bíla. Þótt Toyota hafi vissulega ekki orðið verst úti er sölusamdrátturinn 32 prósent í október miðað við sama tíma í fyrra.

Tvinnbíllinn Prius er meðal söluhæstu bíla Toyota í Bandaríkjunum og bíllinn hefur orðið táknmynd umhverfismildra bíla í hugum meirihluta Bandaríkjamanna. Prius hefur alla tíð verið framleiddur í Japan einvörðungu en til stóð að hefja framleiðslu á honum í Missisippi. Því hefur nú sem fyrr segir verið slegið á frest enda þótt verksmiðjan sé nánast tilbúin að 90 prósenthlutum.