Toyota er stærst

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að Toyota sé stærsti bílaframleiðandi heims, annað árið í röð. En það er afar mjótt á munum milli risanna í greininni og bilið milli þeirra hefur verið að styttast. Að vísu liggja ekki alls staðar fyrir fullnaðartölur um nýskráningar á sl. ári en ekki er reiknað með að lokatölurnar sem enn vantar, breyti heildarniðurstöðunni úr þessu.

Toyota er semsé stærst þegar eintakafjöldi allra þeirra bílamerkja sem eru í eigu Toyota er talinn saman. Hjá Toyota eru þau auk Toyota; Lexus, Scion, Hino og Daihatsu. Af þessum merkjum voru framleiddir samtals 9,98 milljón bílar í fyrra. Það er 2,4 prósenta aukning miðað við árið 2012.  Það má teljast vel af sér vikið hjá fyrirtækinu eftir flóðahamfarirnar í Japan sem lögðu verksmiðjur í rúst, bylgju andúðar á Japönum og öllu japönsku í Kína og miklum innköllunum nýlegra bíla um allan heim.

Næst stærsti framleiðandinn er General Motors sem ungaði út 9,71 milljón bílum í fyrra og náði að helminga bilið milli sín og Toyota. Það var 270 þúsund bílar en var 460 þúsund bílar árið 2012. Salan hjá GM jókst um 4 prósent milli ára sem er nokkru meiri aukning í prósentum talið en varð hjá Toyota. En mest prósentuaukning varð hjá Volkswagen milli áranna 2012-2013; 5 prósent og ef hún heldur svo áfram mun Volkswagen ná því markmiði sínu að verða stærsti bílaframleiðandi heims fyrir 2018.