Toyota fær hæstu einkunn fyrir þjónustu – VW enn á botninum

http://www.fib.is/myndir/Toyotalog.jpg

Samkvæmt nýjustu árlegri könnun sem Motormännens Riksförbund, hið sænska systurfélag FÍB gerir meðal félagsmanna sinna eru eigendur Toyotabifreiða áberandi ánægðastir með þjónustu og viðurgerning af hálfu Toyota, hvort heldur sem um er að ræða viðmót viðgerða- og þjónustuaðila eða gæði sjálfrar þjónustunnar. Sænskir Volkswageneigendur eru á hinn bóginn þeir óánægðustu - níunda árið í röð, hvorki meira né minna.

Könnunin í heild verður birt í næsta tölublaði Motor, félagsblaðs Motormännens Riksförbund. Á heimasíðu félagsins er nú í dag birtur sá hluti könnunarinnar sem lýtur að ánægju bíleigenda með þjónustu og viðmót af hálfu bæði söluaðila sem og þjónustuaðila. Þar sést að Toyotaeigendur eru mjög ánægðir með verkstæðisstarfsmenn- og aðra þá sem þjónusta bílana. Aðspurðir um framkomu sölufólks eru sænsku bílaeigendurnir ánægðastir með sölumenn Volvo og Toyota. Eigendur VW Polo, Passat, Golf og Audi A4 eru þeir óánægðustu með þjónustu og viðmót verkstæðis- og þjónustuaðila. Af könnuninni nú má þó ráða að mjög hefur dregið úr þessari óánægju eftir að VW hefur breytt um stefnu og lagt stóraukna áherslu á þjónustu og gott viðmót gagnvart viðskiptavinum. Jafnframt hefur biðtími eftir viðgerðum og annarri þjónustu styst umtalsvert frá næstu könnun á undan þessari og gæði þjónustunnar hafa aukist. Óánægjan er því að hluta fortíðarvandi, því að tíma tekur að breyta viðhorfum sem hafa náðst að festast í hugskoti fólks um margra ára skeið. –Við teljum að VW bílar eigi eftir að hækka í áliti og klifra ofar í matsstigana á næstu árum segir Terje Eklund tæknistjóri hjá hinu sænska systurfélagi FÍB; Motormännens Riksförbund.
 
Tæknistjórinn segir ennfremur að sem tegund sé á áberandi hversu vel Toyota kemur út hvað varðar viðhorf eigenda Toyotabíla. Eigendur þriggja gerða Toyota – þ.e. Corolla, Yaris og Avensis raða verkstæðis- og þjónustufólki þessara gerða í þrjú efstu sætin. -Þetta segi ekki síst sína sögu um gæði bílanna sjálfra. Þegar engir gallar eða bilanir koma fram í bíl, hefur eigandinn augljóslega ekki ástæðu til að kvarta undan verkstæðisstarfsmönnunum, segir Terje Eklund.
 
Kaupendur Volvo S80 og Toyota Avensis eru ánægðastir með viðmót bílasölu- og  -afgreiðslufólksfólks og í þeim efnum kemur Volvo S60 svo í þriðja sætið. Sömuleiðis er vel látið af sölumönnum hins nýja Renault Clio.
Motormännens Riksförbund gerði þessa ánægjukönnun í fyrsta sinn 1984 og árlega síðan. Að þessu sinni tóku 15.122 bílaeigendur þátt í könnuninni en til þess að vera gjaldgengur þátttakandi þarf vðkomandi að hafa átt nýja bílinn í eitt ár.