Toyota Hilux sem nærri valt í sænsku elgsprófi

http://www.fib.is/myndir/ToyotaHiluxvelta.jpg

Sala á Toyota Hilux á 16 tommu álfelgum hefur verið stöðvuð í Evrópu tímabundið eftir að blaðamenn sænska tímaritsins Teknikens Värld höfðu næstum velt slíkum bíl í reynsluakstri. Tilraunaökumenn Toyota eru þessa dagana að prófa Hilux bíla og samkvæmt frétt sem danska blaðið Jyllands Posten hefur eftir forstjóra Toyota í Danmörku hefur þeim ekki enn tekist það sama og sænsku blaðamönnunum tókst.

Bíllinn sem sænsku blaðamennirnir reynsluóku var á 16 tommu álfelgum og er fullyrt í frétt JP að veltan sem nærri varð, sé þeim að kenna og að Hilux bílar í Danmörku séu afgreiddir á 15 tommu stálfelgum og þar með sé engin hætta á að þeir velti. Hið sama segir Aftenposten í Noregi. 16 tommu hjólin séu breiðari og það sé ástæða þess að bíllinn næstum valt.
Þessi skýring hljómar óneitanlega undarlega en vera kann að bíllinn sé óstöðugri á stærri hjólunum. Meginástæðan hlýtur þó að vera sú að ekkert ESC kerfi er í Hilux – enginn stöðugleikabúnaður. Hilux fæst ekki með slíkum búnaði.

Á heimasíðu Teknikens Värld um málið segir að Toyota Hilux sé lífshættulegur. Síðan segir þetta:

„Árið 1997 Valt Mercedes A-klass í elgsprófi Teknikens Värld. Nú tíu árum síðar er það Toyota Hilux sem algerlega mistekst að standast elgsprófið.

Pallbílar hafa þróast frá því að vera vinnubílar iðnaðarmanna upp í það að vera bæði auglýstir og seldir sem fjölskyldubílar. Teknikens Värld hefur reynsluekið sex tegundum pallbíla með áherslu á þá fólksbílaeiginleika sem haldið er á lofti í auglýsingum. Allir pallbílarnir, eins og aðiri bílar sem tímaritið reynsluekur, gengust undir elgsprófið, sem er snöggbeygjupróf sem afhjúpar mjög vel eiginleika bíla og hönnun yfirbyggingar og undirvagns. Í flestum nýjum fólksbílum er ESC stöðugleikakerfi. Einungis einn fyrrnefndu pallbílanna var með slíkt kerfi.

Toyotas Hilux – stolt Toyota - kolféll á elgsprófinu og okkur rétt tókst að forða því að bíllinn ylti. Niðurstaðan er skýr: Ef snöggbeygja þarf Toyota Hilux í venjulegri umferð þá veltur hann.
Ritstjori Teknikens Världs, Daniel Frodin krefst þess að Toyota gangist við ábyrgð sinni og búi Hilux þegar í stað ESC stöðugleikabúnaði. Þá ætti það að vera sjálfsagt mál að þeir sem þegar hafa keypt sér Hilux fái búnaðinn settan í bílana. Verði þetta ekki gert er það augljóst merki um frámunalega mikið kæruleysi um líf viðskiptavinanna. Jafnframt ráðleggur Teknikens Värld fólki eindregið frá því að fá sér Toyota Hilux þar til bíllinn hefur verið gerður öruggur.

Hægt er að sjá myndskeið af Toyota Hilux í elgsprófinu hér.