Toyota innkallar 7,4 milljón bíla

Toyota hefur innkallað 7,4 milljón bíla um allan heim vegna hugsanlegs galla í aðalrofa fyrir rúðuupphalarana. Rofinn situr á bílstjórahurðinni og með honum getur ökumaður aftengt upphalararofana á öllum hurðum bílsins.

Gallinn er þannig að við vissar aðstæður getur rofinn yfirhitnað og reykur frá honum borist inn í fólksrýmið og í örfáum tilvikum hefur orðið bruni af þessu. Engin dæmi eru um slys eða dauðföll. Fyrstu dæmin um gallann munu hafa komið fram árið 2008. Hér á landi nær innköllunin til 3.690 bíla af gerðunum Corolla, Yaris, Auris og Rav 4 af árgerð 2006 til 2008.

Innköllunin nú er önnur stærsta sinnar tegundar nokkru sinni. Sú stærsta átti sér stað þegar Ford innkallaði átta milljón bíla árið 1996. Hún er algerlega að frumkvæði Toyota. Engin öryggisyfirvöld hafa krafist hennar. Skipt verður um höfuðrofann í innkölluninni og tekur aðgerðin ca. 40 mínútur. Viðgerðin er eigendum bílanna að kostnaðarlausu.

Líta má svo á að innköllunin sé einskonar varúðarráðstöfun til að forðast umtal og fjölmiðlastorm eins og varð á árunum 2009 – 2011 út af þeim meinta galla að eldsneytisinngjöf Toyotabíla ætti það til að festast í botngjöf og bílarnir yrðu þannig ill- eða óviðráðanlegir. Umtalið um þennan meinta galla spillti gæðaorðspori Toyota en þrátt fyrir ítarlega rannsókn NHTSA, umferðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna fannst aldrei neinn galli í bensíngjöfinni eða tölvustjórnbúnaði hennar sem valdið gæti þessum meintu hremmingum.