Toyota innkallar 880 þúsund bíla

The image “http://www.fib.is/myndir/Toyotalogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Toyota er nú í sinni stærstu innköllun nokkru sinni. Innkallaðir verða samtals 880 þúsund bílar vegna of veikra hjólaupphengja. Bílarnir eru flestallir jeppar af 4Runner gerð og pallbílar af gerðinni Tacoma. Langstærstur hluti þessara bíla eru í Bandaríkjunum. Einn 4Runner og þrír Tacomabílar hafa verið fluttir inn til Íslands frá Bandaríkjunum það sem af er árinu samkvæmt nýskráningartölum um notaða bíla frá Umferðarstofu.
Auto Motor & Sport greinir frá þessari innköllun í dag og getur þess jafnframt að aðrir bílaframleiðendur séu síður en svo með grátstafinn í kverkunum yfir málinu. Þeir telji að loks hafi það sýnt sig að þeir Toyotamenn séu líka mannlegir eftir allt saman og geti gert mistök. Samhliða þessari innköllun á jeppunum og pallbílunum í Ameríku hefur Toyota tilkynnt um galla í tölvuforriti tvinnbílsins Prius sem getur valdið því að það drepist skyndilega á bílnum sem einmitt gerðist í reynsluakstri sænska bílatímaritsins Vi Bilagäre fyrir ekki löngu. Ekki hefur þó komið til þess að Prius hafi verið innkallaður vegna þessa galla.
Toyota er mikið yfirburðafyrirtæki í bílaframleiðslu sem aðrir bílaframleiðendur hafa orðið að bera sig saman við hvað varðar gæði og arðsemi. Ekki er nóg með að Toyota sé löngu orðið stærsta bílaframleiðslu fyrirtæki Japans heldur er það að verða hið stærsta í heiminum. Á síðasta ári fór Toyota fram úr Ford á heimsvísu og dregur ört á GM sem er heimsins stærsta bílaframleiðslufyrirtæki. Með sama áframhaldi Búast má við að Toyota sigli fram úr GM eftir þrjú til fjögur ár.
Gallinn sem innkallað er út af getur að sögn Financial Times valdið því að stýrið fari úr sambandi og bíllinn verði stjórnlaus. Tvö slys hafa orðið vegna þessa sem vitað er um, en ekkert dauðaslys þó. Þá er vitað um önnur 34 minniháttar atvik þar sem enginn meiddist.
The image “http://www.fib.is/myndir/Toyota-Tacoma.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.The image “http://www.fib.is/myndir/4Runner.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Toyota Tacoma. Þrír slíkir hafa verið fluttir inn notaðir frá Bandaríkjunum á þessu ári og einn 4Runner eins og sá á myndinni til hægri.