Toyota IQ

http://www.fib.is/myndir/Toyota-iq.jpg

Nýi smábíllinn, borgarbíllinn Toyota IQ er til sýnir á bílasýningunni í Genf sem í morgun var opnuð almenningi eftir að hafa verið opin fréttamönnum í tvo undanfarna daga. Bíllinn er lítið eitt lengri en Smart Fortwo en hefur talsvert meira innanrými. Sæti eru fyrir þrjá fullorðna og eitt barn. Í Smart eru hinsvegar sæti einungis fyrir tvo fullorðna eða þá ökumann og eitt barn.

Forstjóri Toyota í Evrópu sagði við blaðamenn á Genfarsýningunni í fyrradag að Toyota IQ væri mjög mikilvægur áfangi í sögu Toyota. Hann mætti flutningsþörfum stórborgarbúa og væri algerlega nýr kostur fyrir þá. Þetta þóttu talsvert stór orð en bíllinn stendur óneitanlega fyrir sínu. Hann er byggður af kunnáttu og hugvitssemi og innanrýmið er með ólíkindum miðað við bíl sem einungis er 298,5 sm að lengd. Vegna þess hve skögun fram yfir hjólin að aftan og framan er lítil er lengd milli hjóla fullir tveir metrar og þar með er hlutfall milli lengdar og breiddar milli hjólamiðja hagstætt með tilliti til aksturseiginleika.

Til samanburðar er heildarlengd Smart bílsins 269 sm og lengd hans milli hjólamiðja er 186,5 sm. Hin óvenju litla skögun IQ borið saman við Smart þýðir að í IQ vinnast einir 10 sentimetrar á lengdina, sem er talsvert í svona litlum bíl. Það ásamt hugvitssamlegri tilhögun í innréttingu skilar heilu fullorðinssæti í viðbót og barnasæti.

Verkfræðingarnir hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja því að þeir hafa skapað fyrirferðarminna mismunadrif en hingað til hefur sést. Til þessa fyrirferðarlitla drifs, fyrirferðarlítillar miðstöðvar og stýrisvélar sem situr hátt í vélarrýminu, er að rekja mest af þeim ofannefndu 10 sentimetrum sem skiluðu sér í stærra innanrými.

Loks er eldsneytisgeymirinn hafður mjög flatur og þunnur og staðsettur undir gólfinu ökumannsmegin þannig að ekki er hann að taka frá innanrýminu. Þá eru bökin á framstólunum og fullorðinssætinu afturí mjög þunn án þess þó að þægindin séu fyrir borð borin að því sagt er. Þessi þunnu bök gefa fjögurra sentimetra auka-fótarými og til að skapa rými í farþegasætinu fram í og fullorðinssætinu fyrir aftan það er innfelling í mælaborðinu framan við framsætið til að geta haft það framar en ella.

Þrátt fyrir að Toyota IQ sé með minnstu bílum er hann búinn öllum nýjasta öryggisbúnaði og talsmenn Toyota á sýningunni í Genf segjast vissir um að hann muni ná fimm stjörnum í árekstursprófi EuroNCAP. En miðað við það að nýja gerðin af Smart Fortwo náði fjórum stjörnum í prófinu sem er hreint ekki slæmt fyrir svo lítinn bíl þá verða fimm stjörnur hreint frábær árangur en það á eftir að koma í ljós.

Fjöldaframleiðsla á IQ hefst í Japan í október og í boði verða tveir bensínmótorar og einn dísilmótor. Framleiddir verða um 100 þúsund IQ bílar á fyrsta framleiðsluárinu.