Toyota iQ borgarbíllinn

http://www.fib.is/myndir/Toyota_iq_2.jpg

Evrópskir bílablaðamenn hafa undanfarið verið að reynsluaka í fyrsta sinn hinum nýja smábíl frá Toyota, Toyota iQ. Bíllinn kemur á markað á Norðurlöndunum fljótlega eftir páska á næsta ári. Blaðamennirnir eru undantekningarlítið ánægðir með bílinn og telja hann bera vel gerðarheitið iQ, sem þýðir greindarvísitala. Mikið hugvit hafi verið lagt í bílinn. Hann sé því í góðum takti við lífsstíl meðvitaðs nútímafólks með greind yfir meðallagi. Toyota iQ sé nánast eini marktæki keppinautur Smart borgarbílsins en með miklu meira notagildi en Smart. Fyrir þá sem eru að huga að bílakaupum í dag sé einfaldlega óskynsamlegt að líta framhjá þessum nýja bíl.

Blaðamenn tímaritsins Bil Norge hafa reynsluekið iQ og segja hann hafa einkum tvennt fram yfir hinn tveggja sæta Smart: Hann sé fjögurra sæta þótt fjórða sætið sé einkum ætlað barni. En í fullorðinssætunum þremur sé gott rými fyrir fullvaxta Norðmenn. Notagildi bílsins sé þar með miklu meira en notagildi Smart. Þá séu aksturseiginleikar bílsins alveg ágætir þrátt fyrir að lengd milli hjóla sé einungis tveir metrar. Hann sé þrælstöðugur á hraðbrautum. Ennfremur segja þeir að í borgarþrengslum sé bíllinn mjög lipur og leggi svo vel á að hægt sé að snúa honum við á fimmeyringi. Ekki skal það þó tekið bókstaflega en engu að síður – þvermál beygjuhrings bílsins er einungis 7,8 metrar sem er hátt í hálfum metra styttra en hjá Smart.

Þegar setið er undir stýri virkar iQ eins og talsvert stærri bíll. Sé hann borinn saman við „stóra“ bróður sinn Yaris er hann þó heilum 76,5 sentimetrum styttri en einungis 15 millimetrum mjórri. Manni finnst því að maður setjist inn í „eðlilegan“ bíl enda er fóta-, axlar-, og höfuðrými í fínu lagi. Það er ekki fyrr en maður lítur aftureftir bílnum að maður áttar sig á hversu lítill iQ er. Þegar litið er í baksýnisspegilinn á vörubílinn fyrir aftan er eins og hann sé með stuðaðarann í bakinu á ökumannssætinu. Það er því nokkur léttir að vita af aftursætispúðanum fyrir aftan aftursætið.

Bensín- eða dísilvél

Um tvær vélar verður að velja í milli, a.m.k. í fyrstunni; bensínvélin er þriggja strokka, 68 hö. og gefur frá sér aðeins 99 grömm af CO2 á kílómetrann.Við hana er annaðhvort fimm gíra handskiptur gírkassi eða nýhannaður stiglaus CVT-gírkassi sem kallast Multidrive. Dísilvélin er fjögurra strokka, 1,4 l að rúmtaki og 90 hö. Bensínvélin er fyllilega nógu öflug, ekki síst ef ætlunin er að nota bílinn fyrst og fremst innanbæjar. Á vegum úti er dísilvélin með sitt mikla tog eða vinnslu hins vegar skemmtilegri þar sem sárasjaldan þarf að skipta niður og framúrakstur er auðveldari.

Bíllinn kemur á markað á þéttustu markaðssvæðum Evrópu strax í janúar. Til Norðurlandanna er hann væntanlegur síðar, eða um miðjan apríl. Norski innflytjandinn áætlar að selja 400 iQ bíla á næsta ári. Til samanburðar hafa selst alls 37 Smart Fortwo í Noregi á þessu ári. Miðað við ástandið í peningamálum Íslands og á íslenska bílamarkaðinum er ill-gerlegt að ráða í það hvað bíllinn muni kosta hér á landi. Í Noregi sem er í sérflokki ríkja hvað varðar há innflutningsgjöld á bíla verður verðið fra Nkr. 158.000

Helstu upplýsingar

Vél: 3-strokka bensínvél. 998 ccm. 50 kW (68 hk) v/6000 sn/mín. 91 Nm v/4800 sn/mín

Lengd / breidd / hæð: 298,5 x 168 x 150 cm

Lengd milli hjóla: 200 cm

Þyngd tilb. til aksturs: 935 kg

Burðarþol: 275 kg

Farangursrými: 32 - 238 lítrar (VDA)

Hjólbarðastærð: 175/65 R15

Hröðun. 0 - 100 km/t: 14,7 sek

Hámarkshraði: 150 km/klst

Eyðsla í bl. akstri: 4,3 l/km

CO2-útblástur: 99 g/km

+ Hugvitsamleg nýting á innanrými og merkilega góðir aksturseiginleikar.

Ekkert aðskilið farangursrými þegar öll sætin fjögur eru í notkun.