Toyota Land Cruiser 150 innkallaður

Eftirfarandi tilkynning hefur borist frá Toyota á Íslandi:

-Toyota í Evrópu hefur tilkynnt um innköllun á Land Cruiser 150 bifreiðum vegna uppfærslu á stöðuleikastýringu. Í undantekningartilvikum, þegar tekin er beygja á miklum hraða er mögulegt að bíllinn renni til án þess þó að ökumaður missi stjórn á honum. Til að koma í veg fyrir þetta verður hugbúnaður stöðuleikastýringarinnar uppfærður.

Haft verður samband við eigendur þeirra 26 bifreiða sem komnar eru í notkun hér á landi og kalla þarf inn. Um tuttugu Land Cruiser bifreiðar eru væntanlegar til landsins á næstunni og falla þær einnig undir þessa innköllun.

Ekki er vitað til þess að slys hafa orðið af þessum völdum í Evrópu og undir öllum venjulegum kringumstæðum og í eðlilegum akstri er bíllinn öruggur. Innköllunin á einnig við um Lexus GX 460 jeppa sem ekki eru á markaði hér á landi. Innköllunin nær ekki til annarra gerða af Toyota og Lexus.-

Hér á FÍB fréttavefnum hefur áður verið greint frá athugasemdum Consumer Reports í Bandaríkjunum við stöðugleikastýringu Lexus GX 460 sem mun vera samskonar bíll og Land Cruiser 150 á Íslandi.