Toyota og BMW í tæknisamvinnu

Óstaðfestar fréttir frá Japan segja að menn frá Toyota og BMW í Munchen ræði nú um samvinnu milli fyrirtækjanna á sviði véltækni. BMW fái aðgang að tvíorkutækni Toyota og Toyota fái í staðinn sparneytnar dísilvélar frá BMW. Auto, Motor & Sport hefur þetta frá útibúi JP Morgan bankans í Tokyo.

Samkvæmt þessum óstaðfestu fregnum hugsa aðilar sér að vinna saman að þróun enn sparneytnari orkukerfa fyrir bíla sem ekki bara brenna minna eldsneyti heldur menga líka minna. Toyota hefur lengi þróað tvíorkukerfi og framleitt tvíorkubíla og býr trúlega yfir mestri þekkingu bílaframleiðenda í þeim efnum. Gegn því að veita BMW aðgang að þeirri þekkingu þykir fræðimönnum í bílamálum líklegt að Toyota muni þiggja það að fá nokkrar þeirra ofursparneytni en öflugu og sterku dísilvéla sem BMW hefur þróað.

Síðan Akio Toyoda varð stjórnarformaður Toyota árið 2009 hefur Toyota verið að bjóða upp á samvinnu við stöðugt fleiri aðila eins og t.d. Ford, Tesla í Kaliforníu og Aston Martin í Bretlandi. Þessar fregnir um yfirvofandi samvinnu Toyota og BMW þurfa því ekki að koma á óvart.  Í þessu sambandi er einnig rétt að hafa í huga að vegna gengisþróunar japanska yensins gagnvart evru og fleiri vestrænum gjaldmiðlum verður framleiðsla bæði bíla og íhluta stöðugt óhagstæðari í Japan. Því er jafnvel haldið fram að bílar sem framleiddir eru í Japan og fluttir út og seldir í Evrópu séu seldir á sléttu í besta falli eða jafnvel með tapi. Því séu japönsku framleiðendurnir neyddir til að leita sér fótfestu á sem flestum sviðum utan heimalandsins og sem næst stærstu mörkuðum sínum.