Toyota orðið stærst?

http://www.fib.is/myndir/Toy-Auri_6976.jpg
Toyota Auris, ein mest selda Toyotan í heiminum í dag.

Í frétt frá höfuðstöðvum Toyota á jóladag segir að á árinu sem er að líða hafi Toyota náð því að komast fram úr General Motors og verða stærsti bílaframleiðandi heims. Ársframleiðslan árið 2007 verði 9,51 milljón bílar en hjá GM sé hún 9,26 milljón bílar. Auto Motor & Sport greinir frá þessu og jafnframt frá því að hjá GM vilji menn ekki segja neitt um málið fyrr en andanlegt uppgjör liggi fyrir um miðjan næsta mánuð.

General Motors hefur undanfarin 76 ár verið stærsti bílaframleiðandi heims en Toyota hefur undanfarin ár verið að draga mjög á GM og seig reyndar framúr GM á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. GM seig svo aftur fram úr Toyota á öðrum og þriðja ársfjórðungi en hver hin endanlega niðurstaða er á árinu öllu er enn ekki alveg ljóst. Hinar endanlegu niðurstöður verða ljósar um miðjan janúarmánuð.

En það er enginn bilbugur á Toyota. Ætlunin er að auka framleiðsluna um 5 prósent á nýja árinu og framleiða samtals 9,95 milljón bíla. Gangi það eftir er það nokkuð ljóst að hæst metna og ábatasamasta bílaframleiðslufyrirtæki heims verður einnig það bílaframleiðslufyrirtæki sem framleiðir flesta bíla..

Toyota samsteypan er metin á um 190 milljarða dollara um þessar mundir. Það er um það bil sexfalt hærra en GM og Ford eru metin á til samans. Toyota samsteypan framleiðir bíla undir vörumerkjunum Toyota, Lexus, Scion, Hino og Daihatsu.

Á komandi ári reikna stjórnendur Toyota með því að selja 1,6 milljón bíla í heimalandinu, Japan og 2,64 milljónir bíla í Bandaríkjunum sem þýðir söluaukningu upp á eitt prósent. Í Evrópu reikna Toyotamenn með því að selja 1,27 milljón bíla á árinu 2008, þar af 200 þúsund bíla í Rússlandi. Ekki er langt síðan Toyota tók nýja bílaverksmiðju í notkun í Rússlandi og varð þar með fyrsta japanska bílafyrirtækið til þess.