Toyota selst verr í Evrópu en vænst var

http://www.fib.is/myndir/Toyotanef.jpg

Helst lítur út fyrir að Toyota takist ekki að ná markmiðum söluáætlana sinna fyrir yfirstandandi ár í Evrópu. Verst gengur í Þýskalandi þar sem samdráttur í sölu Toyotabíla er 21% miðað við sama tíma í fyrra. Bílasala í Þýskalandi er hins vegar 7,3% meiri nú en þá. Toyota vonast til að ná að snúa þessu við á næsta ári með tilkomu nýrra gerða bíla, dísilvéla og sjálfskiptinga fyrir dísilvélarnar.

Undanfarin 12 ár hefur salan á Toyotabílum stöðugt vaxið í Evrópu þar til nú að viðsnúningur verður. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins dróst sala á Toyota og Lexus saman 4,3% Samdrátturinn er það mikill að eins og nú horfir er mjög óvíst með að það takist að ná 5% aukningu eins og áætlanir fyrirtæisins gerðu ráð fyrir. Tadashi Arashima forstjóri Toyota í Evrópu telur að salan eigi eftir að aukast undir lok ársins en viðurkennir að erfitt verði að ná 5% markmiðinu úr þessu.

Bílafræðimenn telja að ástæður þessa séu einkum tvær: Toyota vanti sárlega nýjar gerðir bíla og í öðru lagi sé það regla hjá Toyota að vera aldrei með nein sértilboð eða auglýsingaherferðir í gangi eins og flestir aðrir bílaframleiðendur gera gjarnan. Aðspurður um hið síðarnefnda segir Arashima að Toyota muni ekki gefa sig með þessa innanhússreglu og fara út í verðstríð og hverskonar tilboð og gylliboð til bílakaupenda þótt svona illa ári hjá fyrirtækinu í Þýskalandi. Þess í stað kveðst hann trúa á það að allt muni ganga upp árið 2009 þegar nýjar gerðir koma á markað. Á næsta ári sé væntanleg ný kynslóð Avensis og strax í byrjun árs 2009 komi smábíllinn IQ á markað. IQ mun efalaust veita Smart Fortwo harða samkeppni en IQ er svipaður að stærð en með sætum fyrir þrjá fullorðna og eitt barn.

Auk þessara tveggja fyrrnefndra gerða eru væntanlegir fyrir lok ársins 2009 alls 18 bílar sem eru ýmist nýjar gerðir eða verulega breyttar og endurbættar gerðir bíla sem þegar eru í framleiðslu. Allar vélar Toyota sem nú eru í framleiðslu verði auk þess yfirfarnar og endurbættar til að gera þær sparneytnari svo þær gefi frá sér minna koldíoxíð. Loks er væntanleg á næsta ári sjálfskipting fyrir dísilfólksbíla en Toyota hefur ekki boðið upp á slíkt til þessa.