Toyota stefnir hátt

Árið sem er að líða hefur verið mótdrægt Toyota sem orðinn var stærsti bílaframleiðandi veraldar. En svo riðu náttúruhamfarirnar yfir í bæði Japan og Thailandi og settu framleiðsluna í báðum löndum í mikið uppnám. En á næsta ári ætlar fyrirtækið að ná vopnum sínum á ný og auka framleiðsluna og söluna um 20 prósent, í 8,48 milljón bíla, sem er meira en nokkru sinni áður.  Reuters fréttastofan greinir frá þessu í morgun.

Árið 2008 tók Toyota fram úr General Motors og varð söluhæsti bílaframleiðandi veraldar. En jarðskjálftarnir og flóðbylgjan í Japan og flóðin í Thailandi á þessu ári settu stórt strik í reikninginn og framleiðslan dróst mjög saman. Toyota tapaði efsta sætinu. Á þessari stundu lítur út fyrir að þegar árið verður endanlega gert upp, nemi samanlögð árssala Toyota og dótturfyrirtækjanna Daihatsu Motor og Hino Motors 7,9 milljón bílum. Það þýðir að Toyota verður líklega í þriðja sæti í ár á eftir General Motors og Volkswagen Group. Miðað við uppbygginguna hjá Toyota nú, m.a. í Kína og Brasilíu er hugsanlegt að Toyota takist að skjótast fram úr keppinautum sínum á næsta ári og taka fyrsta sætið á ný. „Vandinn var að þeir gátu ekki framleitt bíla upp í eftirspurnina. Nú geta þeir það,“ segir japanskur markaðsgreinandi við Reuters.